Umræða um umhverfismál




Um akstur á hálendinu

Eftirfarandi tenglar eru á síður frá baráttunni gegn álveri Alcoa á Húsavík:
Um starfsemi Alcoa
Eitthvað annað!


Fara á brl.is



Um akstur á hálendinu

Svo ekki fari milli mála er ég að mestu leyti hlynntur nýjum lögum um náttúruvernd frá því í apríl 2013 og tel þau mikla framför frá eldri lögum, sérstaklega hvað varðar að láta náttúruna njóta vafans í mun fleiri tilvikum en gert er ráð fyrir í eldri lögum. Á þessum lögum eru að vísu nokkrir minni háttar hnökrar, sem ekki er ástæða til að gera mikið veður út af og verður ekki fjallað um hér. Í rauninni er aðeins eitt atriði í þessum lögum, sem ég er mjög ósáttur við, en það eru ákvæði um akstur á þeim mörgu vegslóðum á hálendinu, sem orðið hafa til í tímans rás. Þar tel ég að farið hafi verið offari í lokunum vegslóða og nokkuð víðtæku banni við vetrarakstri á snjó og ís, sem ekki getur með nokkru móti haft í för með sér umhverfisspjöll. Þar sem ég þekki lítið til vetraraksturs læt ég öðrum eftir að fjalla um þau mál en ætla að fara nokkrum orðum um lokanir hálendisslóða, sérstaklega í Vatnajökulsþjóðgarði.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég hef töluverða reynslu af fjallvegaakstri að sumarlagi. Ég ferðaðist talsvert um hálendið á 9. áratug síðustu aldar og fór m.a. Gæsavatnaleið nokkrum sinnum áður en Skjálfandafljót var brúað. Ég hef meira að segja lent í vandræðum á hálendinu vegna bilunar í bíl á ómerktum og fáförnum slóða og orðið að þiggja aðstoð. Af ýmsum ástæðum hef ég lítið ferðast um hálendið sl. 15 ár eða svo en keypti mér jeppa í fyrra og er byrjaður að endurnýja góð kynni.
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og samning nýrra náttúruverndarlaga héldust að hluta til í hendur og urðu til í skugganum af mesta raski Íslandssögunnar á hálendinu af manna völdum, þ.e. Kárahnúkastíflu og meðfylgjandi uppistöðulóni en enn fremur margra smærri stíflna og uppistöðulóna á Eyjabakkasvæðinu, sem minni sögum fer af þó að heildarrask austan Snæfells sé líklega ekki minna en vestan þess. Líklega verður að skoða söguna í ljósi þessa: Að mönnum hafi verið mikið kappsmál að hlífa öðrum svæðum þjóðgarðsins eins og framast væri kostur og hafi þá fyrst og fremst horft til bílaumferðar, en bílar geta vissulega flutt stóra hópa af fólki á viðkvæma útivistarstaði á skömmum tíma. Þá hefur ugglaust verið horft til hættu á utanvegaakstri, sérstaklega þar sem óvanir ferðalangar á illa búnum bílum eiga í hlut, nú eða þá torfærutröll með sandstigum (sliskjum), sem fá að fara óáreitt inn á hálendið þó að tilgangur bæði faratækis og búnaðar sé augljóslega utanvegaakstur. Niðurstaðan varð illu heilli að takmarka mjög bílaumferð í þjóðgarðinum með því að loka nokkrum slóðum, svo sem í Vonarskarði.

Mér virðist að rök lokunarsinna séu einkum eftirfarandi:
1. Að koma í veg fyrir utanvegaakstur
2. Að hlífa viðkvæmum svæðum fyrir bílaumferð og miklum mannfjölda
3. Að loka fáförnum, ómerktum og óstikuðum leiðum svo að óvanir eða ókunnugir fari sér ekki að voða.

Allt eru þetta ágætis rök í sjálfu sér og ekki er ég á móti því að stemma stigu við utanvegaakstri, takmarka eða stýra umferð á fjölsótt og viðkvæm landssvæði eða reyna að koma í veg fyrir óhöpp eða slys á hálendinu.
Einu sinni var ég á þeirri skoðun að ekki ætti að fara í neinar vegabætur á hálendinu. Ekki ætti að byggja brýr yfir nein vatnsföll og umfram allt mætti ekki hleypa neinum upp á hálendið, sem ekki væri í þar til gerðu farartæki, þ.e. jeppa. Ég er löngu búinn að skipta um skoðun. Allir Íslendingar ættu að eiga þess kost að heimsækja hið stórfenglega hálendi Íslands, sama hver ferðamátinn er og sama hvort þeir eru jeppamenn, göngugarpar, hestamenn, ungir, gamlir, hraustir, langveikir o.s.frv. Og þá erum við komin að kjarna málsins.
Með því að loka hálendisleiðum fyrir akstri vélknúinna ökutækja erum við að útiloka meirihluta Íslendinga og flesta erlenda ferðamenn frá því að skoða stóra hluta hálendis Íslands. Það gengur einfaldlega ekki að mismuna fólki með þessum hætti.
Á heimasíðu Gísla Ólafs Péturssonar má finna ýmsilegt um þessi mál og má þar benda á ágæta umfjöllun hans um Vonarskarð en þar má m.a. finna eftirfarandi:

"Almenningur er m.a. börn, barnafólk, fólk á besta aldri, aldrað fólk, önnum kafið fólk, fólk með rúman tíma, hálaunafólk, láglaunafólk, meira og líka minna menntað fólk, fullfært fólk, hjartveikt fólk, fatlað fólk, örorkufólk, bæklað fólk, fólk sem á stutt eftir - og almennt ferðafólk.  Fólk sem nýtur þeirrar lífsfyllingar að fara fetið um fjallasali - í öryggi bíls. Yfir 90% Íslendinga. Fólk sem af ótal ástæðum getur ekki uppfyllt þau ólympisku markmið sem íslenskar öræfagöngur krefjast - en er hins vegar svo heppið að víðast um íslensk öræfi er vel bílfært og engra vega þörf. Öræfagönguhetjur hafa víðáttumikil svæði þar sem engum bíl er fært."

Á heimasíðu Gísla má enn fremur finna ágæta grein Sturlu Þengilssonar, sem ber yfirskriftina "Hafa allir Íslendingar rétt til að njóta íslenskrar náttúru?" Í greininni er upptalning nokkurra hópa, sem ekki hafa lengur aðgang að Vonarskarði skv. núgildandi akstursbanni og vil ég leyfa mér að bæta sykursjúkum við.

Ég hef reyndar grun um að hluti af aksturbannhyggjunni sé til kominn vegna fáfræði og fordóma. Fyrir nokkru svaraði ég manni á Fésbók, sem hélt því fram að ferðaklúbburinn 4x4 væri samsafn jeppadellukalla, sem hefði það eitt að markmiði að aka utanvega, stunda sem mestar landskemmdir og yfirleitt þvælast fyrir á hálendinu með hávaða og látum. Það kom á hann þegar ég sagði honum frá uppgræðsluferðum klúbbsins í samvinnu við Landgræðsluna og fleiri aðila, stikuferðir, þar sem fáfarnir slóðar utan vegakerfis Vegagerðarinnar eru stikaðir í sjálfboðavinnu og ferðir, sem beinlínis eru farnar til að lagfæra eftir utanvegaakstur á hálendinu. Þá féllst hann á að líklega væru til staðir á hálendinu þar sem göngufólk gæti verið í friði fyrir vélknúnum ökutækjum, jafnvel staðir þar sem slík tæki kæmust alls ekki.
Vandinn við fáfarnar, ómerktar og óstikaðar leiðir er náttúrlega ekki sá að þær eru til, heldur einmitt að þær eru fáfarnar, ómerktar og óstikaðar. Miklu skynsamlegra væri að veita fé til að merkja þær og stika, t.d. í samstarfi við hagsmunaaðila eins og 4x4. Þá þarf að sjálfsögðu að merkja mun betur, bæði á kortum og á skiltum, hvernig faratæki þarf til að komast hinar ýmsu hálendisleiðir.
Viðkvæm svæði á hálendinu eru náttúrlega fyrst og fremst gróin svæði, þar sem gróður er mjög viðkvæmur fyrir öllum átroðningi, þ.m.t. gangandi vegfarenda. Dæmi um slíkt er Laugavegurinn, sem er orðinn mjög illa farinn af umferð gangandi en ekki akandi ferðalanga. E.t.v. væri hægt að grípa til skyndilokana af einhverju tagi til að minnka ágang á þessi svæði - nú, eða beinlínis selja inn á þau. Þá mætti vel hugsa sér brottfararskatt á erlenda ferðamenn, sem tíðkast víða erlendis og væri hægt að nota að hluta til að laga göngustíga, búa til aðstöðu o.s.frv.
Þá er það utanvegaaksturinn. Hér er ágæt grein eftir Ólaf Magnússon þar sem m.a. er sýnt fram á að það þarf ekki mikinn tilkostnað til að laga slóða þannig að utanvegaakstur heyri sögunni til. Einhverra hluta vegna fékkst þessi grein ekki birt í fjölmiðlum í vetur. Ég held reyndar að utanvegaakstur stafi einkum af fáfræði annars vegar og ásetningi hins vegar. Í fyrra tilfellinu má nefna smájeppa á of mjóum dekkjum, sem treystir sér ekki yfir úrrennslið eða drullupollinn og ekur því til hliðar. Komist hann ekki yfir úrrennslið á hann að sjálfsögðu að snúa við en það er víst ekki öllum gefið. Sama gildir að sjálfsögðu ef hann treystir sér ekki yfir drullupollinn.
Síðara tilfellið er líklega erfiðara viðureignar því að til þess að beita sektum þarf væntanlega að standa viðkomandi að brotinu. Þó má hugsa sér einfalda aðgerð til að minnka þetta verulega: Að banna ferðamönnum á torfærutröllum að koma með sliskjurnar inn í landið.

Að lokum eru hér tveir hlekkir. Sá fyrri er á síðuna ferðafrelsi en hinn síðari á mótmæli Gísla Ólafs Péturssonar við lokunarhótanir stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs vorið 2010. Mér þykja hugleiðingar hans um A og B fólkið einkar lýsandi fyrir hin andstæðu sjónarmið, sem hér takast á en ættu að geta lifað í sátt og samlyndi á víðernum hins íslenska hálendis.

25.6.13