Stjórnmálaumræða

Þeir pistlar, sem eru frá því fyrir 13. mars 2010 eru allir skrifaðir meðan ég var félagi í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, en ég sagði mig úr flokknum 13. mars 2010 þegar flokkurinn setti lög á verkfall flugvirkja. Nýrri greinarnar hafa enn fremur flestar birst á Neistum, vefmálgagni Alþýðufylkingarinnar.

Sigur baráttuafla innan Starfsgreinasambandsins
Lögregluríki?
Einkavæðing almannafjár
"Höfð að háði og spotti"
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu staðfestur af yfirdeildinni
Lög í almannaþágu
Alþjóðasamstarf á tímum covid-19
Stóriðjumartröðin á Húsavík
Stéttabaráttan á tímum covid-19
Lífskjarasamningar
Neyðarlán og niðurgreiðslur
Þegar kröfugerð verður stefnuskráratriði
Sigur yfir stéttasamvinnuöflunum á ASÍ þingi
Alþýðufylkingin
Ræða á baráttufundi Stefnu 1. maí 2016
Hagsmunir í húfi - en hverra?
Ísland, Evrópusambandið og þjóðaratkvæðagreiðslur
Kjósum Andreu J. Ólafsdóttur til embættis forseta Íslands
Aldrei kaus ég Ólaf
Uppgangur fasismans í Evrópu á 21. öld
Forsetinn, Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslur
Sökudólgar og blórabögglar
Ræða á 1. maí fundi Stefnu 2007
Leiðari Norðurstjörnunnar 1. maí 2006
1. maí - alþjóðlegur baráttudagur verkafólks
Jólaglaðningur
Fjölmiðlafrumvarpið
Brún hönd í bláum hanska
Fúl á móti?
Nýjárshugleiðing
Síonasisminn
Sveitarstjórnarmálin





Fara á brl.is



Hagsmunir í húfi - en hverra?

Fyrir nokkru las ég færslu á Fésbók um að flugmenn ættu ekkert með að heimta hærri laun, hvað þá að hóta verkfallsaðgerðum, þar sem þeir hefðu nú þegar svo himinhá laun miðað við láglaunastéttirnar. Þessa færslu skrifaði krati nokkur, sem er landsþekktur, m.a. fyrir pistla í útvarpi, þó að hann hafi að sönnu aldrei á þingi verið né í forystu krataflokkanna svo ég viti. Þetta er sorgleg afstaða en þó svo dæmigerð fyrir kratismann, sem enn og aftur afhjúpar sig sem ekkert annað en argasta undirlægja auðvaldsins.
Það þarf ekki mikið að "gúggla" til að átta sig á því að laun flugmanna eða annarra starfsmanna Icelandair ef út í það er farið eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, sérstaklega þegar nokkrir þættir eru skoðaðir, sem lítið fer fyrir í umræðunni. Hér má nefna hluti eins og ábyrgð, vinnuálag og fleira þess háttar. Enn minna fer þó fyrir umræðu um starfsáhættuna, sem fylgir langri veru í háloftunum með tilheyrandi hættu á geislamengun og krabbameini. Þá láðist ofan- en ónafngreindum krata að skoða árslaun flugmanna þegar hann hneykslaðist sem mest á mánaðarlaununum en eins og flestir vita er meirihluta flugmanna Icelandair sagt upp á haustin og ætlast til að þeir séu svo "standby" næsta vor. Um þetta má einnig "gúggla", t.d. með leitarstrengnum "uppsagnir flugmanna hjá Icelandair". Kemur þá margt forvitnilegt í ljós, m.a. að hið svokallaða tap Icelandair núna, sem félagið ætlar að taka á sig til að geta nú haldið áfram að selja krötum sem öðrum "ódýra" flugmiða, er nokkurn veginn sama tala og sparnaðurinn á veturna þegar stórum hluta flugmanna er sagt upp.
Látum þó laun flugmanna liggja á milli hluta í bili og skoðum hinn endann, þ.e. laun láglaunafólksins í landinu. Það fer ekki á milli mála að það er himinhrópandi munur á lægstu launum og flugmannalaunum - en er það flugmönnum að kenna? Hér skín í gegn gamli kratasöngurinn, sem forysta ASÍ hefur sungið nánast látlaust frá því um 1970, að kjarabætur láglaunastéttanna séu best tryggðar með því að halda niðri launum annarra stétta í landinu. Þetta kom berlega í ljós í vor þegar forseti ASÍ lét að því liggja að þær kjarabætur, sem framhaldsskólakennarar knúðu fram með þriggja vikna verkfalli, hefðu eyðilagt þann mikla árangur, sem hann náði fram með smánarsamningum ASÍ í desember á síðasta ári. Raunar er málflutningur forseta ASÍ á þann veg að helst má skilja hann sem svo að þá fyrst verði kaupmáttaraukning ef alþýðan tekur á sig launalækkun - og kannski má greina lækkunina í hillingum ef svo fer sem horfir í lagasetningum á áunnin réttindi launafólks í landinu.
Víst er að laun umbjóðenda Gylfa eru smánarlaun en hverjum er þar um að kenna nema ASÍ forystunni sjálfri? Verkamenn eru undir járnhæl ASÍ forystunnar og þeim er lífsnauðsynlegt að brjótast undan þessum járnhæl auðvaldsins - en það verður ekki gert fyrr en þeir krefjast þess að kosið verði til forystu ASÍ á sama hátt og í siðuðum stéttarfélögum, þ.e. með póst- og/eða rafrænni kosningu þannig að allir geti kosið en ekki bara þeir fáu útvöldu, sem fá að fara á ASÍ þingin. Þetta ætti að vera eitt helsta baráttumál allra stéttarfélaga innan ASÍ til að ná sambandinu aftur úr klóm auðvaldsins. Núverandi launamunur í landinu er bein afleiðing af því að forysta launafólks tók upp kjörorð íhaldsins um "stétt með stétt".
Það er alltaf gott að vera róttækur krati í stjórnarandstöðu. Þeir hinir sömu kratar og hneyksluðust hvað mest á íhaldsflokkunum í dag virðast alveg vera búnir að gleyma lögunum, sem þeir þó settu sjálfir á verkfall flugvirkja árið 2010 út af "hagsmunum í húfi". Ég man vel að Kristján Möller, þáverandi samgönguráðherra, lét hafa eftir sér að það væri bara ekkert mál að setja lög á verkfallið á þeim tíma. Þá verður að minnast á þátt Ögmundar Jónassonar, sem í dag lýsti því fjálglega að hann mundi aldrei greiða atkvæði með lögum á verkfallsaðgerðir nokkurra starfsstétta. Ágætt svo langt sem það nær - en hvar var hann þegar krataríkisstjórnin samþykkti lögin á verkfallsaðgerðir flugvirkja þann 13. mars 2010? Allavega var hann ekki í þingsal þannig að hann greiddi að sönnu ekki atkvæði með lögunum - en hann greiddi heldur ekki atkvæði gegn þeim. Mig rekur heldur ekki minni til að hann hafi eitthvað sérstaklega látið í sér heyra vegna þessarar lagasetningar kratanna í marsmánuði 2010.
Þá er það klisjan um hagsmunina. Það geta aldrei verið hagsmunir hinna vinnandi stétta að alþingi setji lög á verkföll og breytir þá engu hvað viðkomandi stétt hefur í laun, hvaða kröfur hún gerir eða hver áhrif verkfallsins eru. Lög á verkföll þjóna eingöngu hagsmunum auðvaldsins. Hér verður einnig að minnast á bullið um að það sé einhver nýlunda að verkföll bitni á þriðja aðila, svo sem almenningi, því að það hafa þau alltaf gert með beinum eða óbeinum hætti. Það getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru.
Nei. Ef við föllumst á að það geti verið réttlætanlegt í einhverjum tilfellum að stöðva verkföll með lögum erum við komin út á virkilega hálan ís. Ef við höldum okkur við ónefnda kratann verðum við t.d. að ákveða hvar hin launalegu mörk liggja, þ.e. hvað má starfsstétt hafa í hámarkslaun til að hún geti leyft sér að fara í verkfall til að berjast fyrir kröfum sínum. Ef við föllumst á að einhverjir almannahagsmunir séu verkföllum ofar erum við um leið að segja að verkfallsrétturinn, eina leiðin sem launafólk hefur til að berjast fyrir kjörum sínum, sé ekki ómissandi og ekki hinn mikilvægasti allra almannahagsmuna. Ef við föllumst á þetta munum við vakna upp við það einn góðan veðurdag að einhver hægrisinnuð ríkisstjórn, t.d. núverandi ríkisstjórn, hafi með lagasetningu afnumið verkfalls- og samningsréttinn. Þá held ég að kratar myndu bókstaflega ærast af fögnuði.

15. maí 2014

Efst á síðu


Ísland, Evrópusambandið og þjóðaratkvæðagreiðslur

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri-grænna sagði í ræðu á Alþingi þann 20. febrúar 2014 í umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar um Evrópusambandið, að það væru ömurleg svik ríkisstjórnarinnar við kjósendur ef ekki yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.
Nú get ég alveg verið sammála fyrrum formanni VG. Það eru ömurleg svik við kjósendur að halda ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB eins og stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar þó að þeir keppist nú um að snúa út úr eigin loforðum, sérstaklega framsóknarmenn. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það sé ekki hægt að eiga bæði kökuna og éta hana.
Það voru ömurleg svik VG við bæði flokksmenn og óflokksbundna kjósendur sína vorið 2009 að ljá máls á stjórnarsamstarfi við hinn krataflokkinn án þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin vildi yfir höfuð sækja um aðild að ESB. Í dag er staðan sú að VG er orðinn að argasta ESB-flokki eins og hinn krataflokkurinn og bara spurning um tíma hvenær þessir tveir flokkar renna saman því að munurinn á þeim er enginn nema í örfáum blæbrigðum um þjónkun við íhaldið.
Ég var fylgjandi því að þjóðin yrði spurð álits á því 2009 hvort við ættum að sækja um aðild að ESB og impraði á því ef ég man rétt úr ræðustól á þeim flokksráðsfundi VG, þar sem tillaga Steingríms og Katrínar Jakobsdóttur, núverandi formanns VG, um stjórnarsamstarf var samþykkt með naumum meirihluta. (Hér er rétt að halda því til haga að aðeins þrír greiddu beinlínis atkvæði gegn tillögunni en mjög margir, þ.m.t. undirritaður, sátu hjá. Það túlkaði stjórn VG sem mikinn meirihluta fyrir tillögunni). Ég hlýt að vera jafn fylgjandi því nú að þjóðin verði spurð álits á því hvort hætta eigi viðræðunum þrátt fyrir að vera yfirlýstur andstæðingur þess að ganga í ESB. Annars væri ég ekki samkvæmur sjálfum mér í afstöðunni til þjóðaratkvæðagreiðslna, sem margoft hefur komið fram í skrifum mínum hér á síðunni.
Þá er málflutningur Birgittu Jónsdóttur, þingmanns pírata, jafn ömurlegur. Það er alveg rétt hjá henni að það er mjög líklegt að núverandi ríkisstjórn mundi að öllum líkindum hundsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu, sem væri þeim ekki að skapi. Það er hins vegar ekki ástæða til að víkja frá kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá gætum við alveg eins hætt við lýðræðið á þeirri forsendu að stundum virkar það ekki sem skyldi.

22. febrúar 2014

Efst á síðu


Kjósum Andreu J. Ólafsdóttur til embættis forseta Íslands

Þegar umræðan um stjórnarskrána stóð hvað hæst í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings lét Sigurður Líndal, lagaprófessor, hafa eftir sér eitthvað á þá leið að við þyrftum ekki nýja stjórnarskrá, heldur væri nær að byrja á því að fara eftir þeirri, sem er í gildi. Nú tel ég að lýðveldið þurfi sárlega á nýrri stjórnarskrá að halda vegna augljósra galla, sem eru á gildandi stjórnarskrá. Nægir þar að nefna að ýmsar greinar hennar eru svo galopnar að þær má túlka að vild hvers sem er.
Látum þá umræðu þó liggja á milli hluta í bili. Nú býður sig fram til embættis forseta Íslands kona, sem hefur gefið okkur það hógværa en þó um leið það róttæka loforð að ætla að fara eftir gildandi stjórnarskrá og hugsanlega virkja nokkrar greinar hennar, sem snúa að valdsviði forsetans, í þágu fólksins í landinu, telji hún þurfa á því að halda og fái hún til þess hvatningu frá fólkinu. Við skulum hafa það í huga að forseti Íslands er skv. stjórnarskránni eins konar milliliður milli þings og þjóðar. Hann er okkar eini þjóðkjörni fulltrúi og sá eini, sem er kosinn beinni kosningu milliliðalaust. Alþingismenn er aftur á móti kosnir hlutfallskosningu og alþingi ákveður ríkisstjórn Íslands með þingræðisreglunni þó að skipun ráðherra sé formlega hjá forseta Íslands.
Við skulum rifja upp nokkrar greinar stjórnarskrárinnar:

15. grein: Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
24. grein: Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.
25. grein: Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.
26. grein: Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Sitjandi forseti hefur nú þegar beitt málskotsréttinum, sem 26. greinin fjallar um. Það þýðir ekki að forsetinn hafi tekið afstöðu til málsins. Það þýðir einfaldlega að forsetinn hefur ákveðið að þjóðin fái að hafa síðasta orðið um viðkomandi lög. M.ö.o. hefur forsetinn virkjað hið beina lýðræði með því að leggja viðkomandi lagafrumvarp í dóm atkvæðisbærra manna í landinu.
26. greininni var fyrst beitt árið 2004 eða 60 árum eftir að lýðveldið var stofnað. Nokkur umræða fór af stað um hvort forsetanum væri þetta yfirleitt heimilt, þ.e. að ákvæði 26. greinar í sjálfri stjórnarskránni væri bara upp á punt (og forsetinn þar með puntudúkka). Nú orðið efast enginn um að forsetinn hefur þetta vald, að virkja beina lýðræðið.
Andrea J. Ólafsdóttir hefur talað um að virkja hugsanlega ákvæði 15. og 25. greinar stjórnarskrárinnar. Fáir, ef nokkrir, efast lengur um að valdheimilidir forseta Íslands í stjórnarskránni eru raunverulegar en ekki upp á punt. Hins vegar eru uppi efasemdarraddir um þessi ákvæði og jafnvel eru þeir til, sem voga sér að halda því fram að virkjun beina lýðræðisins sé ekkert annað en einræðistilburðir og er jafnvel talað um hótun um valdatöku í þessu sambandi. Þetta finnst mér ákaflega skrýtin umræða. Mér er til dæmis fyrirmunað að skilja hvernig aukin aðkoma fólksins í landinu að lagasetningum alþingis getur verið dæmi um einræði. Þá þætti mér ekki verra að hafa forseta, sem hefur beinlínis lýst því yfir að hún muni fara að tilmælum stórs hluta atkvæðisbærra manna í landinu og beita 15. greininni í neyðartilfellum. Ég get nefnt tvö slík tilfelli, sem hafa komið upp á þessari öld. Hið fyrra var þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu upp á sitt einsdæmi og í óþökk bæði þings og þjóðar að setja Ísland á lista hinna “staðföstu ríkja” þegar Bandaríkin réðust inn í Írak í leit að gereyðingarvopnum, sem ekki voru til. Hið síðara er að sjálfsögðu bankahrunið 2008.
Þá er meint hótun um valdatöku enn þá skrýtnari. Til að ná völdum í landinu þarf að hafa einhverja hópa á bak við sig, sem ná á sitt vald helstu stofnunum samfélagsins, svo sem her eða lögreglu. Nú erum við herlaust land og lögreglan er helst til fáliðuð í svona risavaxið verkefni ef hún þá á annað borð mundi ljá beiðni um slíka valdatökuaðstoð eyra. Þá er nú ekki ýkja flókið að setja svo valdagráðugan forseta af og það hefur Andrea bent á sjálf: Að virkja 11. grein stjórnarskrárinnar:

Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis.
Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna.
Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er útslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.
Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.

Með öðrum orðum: Beina lýðræðið virkar í báðar áttir! Ákvæði stjórnarskrárinnar um forseta Íslands og valdheimildir hans eru hugsuð þannig að fólkið í landinu geti veitt alþingi aðhald gegnum forsetann - og öfugt - að fólkið í landinu geti veitt forseta aðhald gegnum alþingi. Á meðan gjá er í landinu milli þings og þjóðar og alþingi nýtur aðeins trausts og virðingar u.þ.b. 10% kjósenda finnst mér sjálfsagt að láta reyna á stjórnarskrána - en til þess þarf forseta, sem þorir að beita ákvæðum hennar í neyðartilvikum.
Kjósum Andreu J. Ólafsdóttur á laugardag og virkjum stjórnarskrána!

25. júní 2012

Efst á síðu


Aldrei kaus ég Ólaf

Í febrúar 2011 skrifaði ég grein, þar sem ég ræddi ákvörðun forseta Íslands að nýta málskotsréttinn og vísa Icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vísaði m.a. til afstöðu minnar varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur eins og hún kom fram þegar ég bauð mig fram til stjórnlagaþings og ræddi í framhaldi af því hvernig afstaða fólks til forsetans hefur breyst eða er jafnvel breytileg eftir því hvort það vildi að þetta eða hitt málið færi til þjóðarinnar.
Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fyrst fram til embættis forseta íslands árið 1996 svínfylktu kratar sér um sinn mann. Þegar forsetinn ákvað að beita málskotsréttinum á fjölmiðlalög Davíðs Oddssonar voru kratar himinlifandi og ræddu fjálglega um kosti hins beina lýðræðis og lýstu mikilli ánægju með ákvörðun forsetans. Svo kom Icesave.
Fyrri Icesave samningurinn var í rauninni svo slæmur að það ríkti sæmileg sátt um ákvörðun forsetans í það skiptið, a.m.k. fór umræðan ekki á annan endann nema eitthvað hafi farið verulega fram hjá mér. Þegar forsetinn tók hins vegar þá ákvörðun að vísa seinni samningnum til þjóðarinnar má segja að allt hafi orðið vitlaust. Bæði kratar og margir aðrir, sem voru fylgjandi samningnum, þ.m.t. ýmsir sjálfstæðismenn, fundu ákvörðun forsetans allt til foráttu og Ólafur Ragnar Grímsson var orðinn eins langt frá því að vera óskabarn kratanna og nokkur forseti getur orðið.
Ég greiddi atkvæði með seinni Icesave samningnum og hefði viljað að meirihluti þóðarinnar hefði gert slíkt hið sama. Það þýðir þó engan veginn að ég hafi verið mótfallinn ákvörðun forsetans. Þvert á móti. Ég get engan veginn leyft mér að vera fylgjandi stórauknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í íslenskum stjórnmálum annars vegar og hins vegar sett út á þá ákvörðun forseta Íslands að beita málskotsréttinum í jafn umdeildu máli hins vegar. Það er einfaldlega ekki hægt að eiga bæði kökuna og éta hana.
Á hinn bóginn er fjarri lagi að Ólafur Ragnar hafi bjargað þjóðinni frá öðru fjármálahruni með því að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og sumir stuðningsmanna hans úr röðum hægri manna hafa haldið fram. Icesave samningurinn snerist eingöngu um ríkisábyrgð, þ.e. tryggingu lágmarksgreiðslu. Á þessum tíma var orðið ljóst að gamli Landsbankinn ætti fyrir skuldinni, þannig að mjög ólíklegt var orðið að nokkuð félli á ríkið og þar með íslenska skattgreiðendur. Þvert á móti hefur ákvörðun forsetans eða öllu heldur ákvörðun meirihluta þjóðarinnar leitt til þess að nú er rekið dómsmál fyrir ESA dómstólnum gegn íslenska ríkinu - og þar með íslensku þjóðinni - með fullri aðkomu framkvæmdastjórnar ESB. Ég treysti engan veginn dómstólum ESB til að dæma Íslandi í vil og kæmi ekki á óvart þó að afleiðing ákvörðunar þjóðarinnar í Icesave málinu verði að íslenska ríkið verði dæmt til sektargreiðlsna, sem erfitt verði að ráða við, jafnvel dæmt til að greiða allan Icesave pakkann! Þess vegna greiddi ég atkvæði með samningnum því að ég þóttist viss um að þetta mundi gerast. Það þýðir þó engan veginn að afstaða mín til ákvörðunar forsetans hafi breyst.
Í greininni, sem ég vitna til, endaði ég á því að lýsa því yfir að ef ákveðnar aðstæður mundu ekki breytast mundi ég líklega kjósa ÓRG í sumar þrátt fyrir alla hans galla (sem ég vík að síðar) og væri það þá í fyrsta skipti, sem ég gerði það. Nú hafa aðstæður hins vegar breyst.
Í fyrsta lagi hillir nú undir þjóðaratkvæði um stjórnarskrármálið. Þó að atkvæðagreiðslan eigi að heita ráðgefandi tel ég ólíklegt að alþingismenn muni voga sér að hundsa hana ef niðurstöðurnar verða afgerandi á annan hvorn veginn. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með tillögum stjórnlagaráðs vegna þess að þær eru þó skref í rétta átt þó að margt megi þar betur fara. Nægir að nefna í bili að mun skýrar er kveðið að orði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur en í núgildandi stjórnarská.
Í öðru lagi býður sig nú fram einstaklingur, sem er mun frambærilegri en sitjandi forseti. Það er að sjálfsögðu hún Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, sem vill, eins og ég, auka beina aðkomu almennings að lýðræðislegum ákvörðunum, sem snerta framtíð þjóðarinnar. Ég fjalla nánar um framboð Andreu í annarri grein.
Sitjandi forseti er vissulega umdeildur maður og hefur alltaf verið. Á því kjörtímabili, sem er að ljúka, hefur þó steininn tekið úr í ýmsum málum þó að mörgum hafi þótt nóg um áður. Stefán Jón Hafstein gerir ágæta grein fyrir nokkrum ávirðingum Ólafs Ragnars Grímssonar á heimasíðu sinni og er ég honum sammála að mestu. Hvað mig varðar eru ákvarðanir hans um beitingu málskotsréttarins það eina góða, sem um hann má segja. Á skuldalistanum eru hins vegar hlutir eins og eftirfarandi:
1. ÓRG sveik kjarasamninga við HÍK árið 1990 og var alltaf ljóst að það ætlaði hann að gera, enda greiddi ég atkvæði gegn þessum samningum.
2. ÓRG var klappstýra útrásarglæpalýðsins og hefur ekki séð ástæðu til að biðja þjóðina afsökunar.
3. ÓRG sér ekki ástæðu til að setja forsetaembættinu siðareglur.
4. ÓRG telur sig geta framfylgt eigin utanríkisstefnu, talað fyrir henni á alþjóðavettvangi og þannig sent umheiminum tvöföld skilaboð frá þjóðinni.
5. ÓRG hagar sér í rauninni á erlendum vettvangi eins og hann sé forseti a la France eða USA.
Þannig mætti ugglaust lengi telja en ég læt þetta duga í bili. Ég ætlaði að skrifa eitthvað um aðra forsetaframbjóðendur og hvers vegna ég kýs engan þeirra en læt duga að segja að enginn þeirra hugnast mér eins vel og Andrea.
Að lokum leyfi ég mér að vona að sitjandi og/eða næsti forseti vísi bæði veiðigjöldunum og kvótalögunum (þegar þau verða vonandi samþykkt á alþingi í haust) til þjóðarinnar því að öðrum kosti næst engin sátt í þessum málum.

20. júní 2012

Efst á síðu


Uppgangur fasismans í Evrópu á 21. öld

Árið 1942 kom út bók eftir franskan blaðamann í útlegð frá heimalandinu, André Simone að nafni.  Í bókinni, Evrópa á glapstigum, lýsir hann uppgangi fasismans í Evrópu á millistríðsárunum og hvernig hann og margir aðrir blaðamenn vöruðu stjórnmálamenn við - fyrir daufum eyrum.  Enn fremur er þar sérstaklega rakið hvernig margir stjórnmálaforingjar Evrópu beinlínis litu undan þegar Hitler, Mussolini og Franco voru að hrifsa til sín völdin og herða tökin á alþýðu viðkomandi landa og síðar hernuminna landa.  Oftast var þetta réttlætt með því að það þyrfti mótvægi við Sovétríkin en í rauninni vonaðist hinn kapítalíski heimur til þess að hin fasísku ríki myndu að lokum ráða niðurlögum hins "hræðilega" sósíalisma í austri.
Fasistaríkin fóru fljótt að ofsækja minnihlutahópa bæði í heimalandinu og hinum herteknu löndum Evrópu.  Öll vitum við um helförina en Gyðingar voru engan veginn eini hópurinn, sem varð illa úti og má þar m.a. nefna homma, svertingja og rómarfólk.
Í dag veður fasisminn uppi í Evrópu öðru sinni vegna andvaraleysis almennings.  Ég segi "almennings" en ekki stjórnmálamanna vegna þess að nóg er til af stjórnmálamönnum í Evrópu, sem fegnir vilja leiða þjóðfélögin ívið lengra til hægri, svona til mótvægis við stefnu landanna í innflytjenda- og flóttamannamálum svo ég tali nú ekki um hina stórvarasömu fjölmenningarstefnu.  Þannig er fólk með svipaðar skoðanir og Breivik beinlínis komið í háar valdastöður í sumum Evrópulöndum, svo sem Hollandi, Frakklandi og Austurríki svo dæmi sé tekið.  Í þessum löndum og fleirum hafa fasistar verið í ríkisstjórnarsamstarfi eða verið burðarásar hægri stjórna.
Sú hugsun að Breivik sé einfaldlega geðsjúkur fjöldamorðingi, sem hafi verið einn að verki er stórhættuleg og enn eitt merkið um andvaraleysi almennings gagnvart hættunni af uppgangi fasismans í Evrópu - öðru sinni!

28. júlí 2011

Efst á síðu


Forsetinn, Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslur

Afstaða mín til þjóðaratkvæðagreiðslna og ákvæða stjórnarskrárinnar um þær er skýr og hefur í raun ekkert með Icesave samninginn sem slíkan að gera. Ég vil stórauka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar, sem fjalla um þær, m.a. með það að markmiði að taka af öll tvímæli um hvenær (um hvað) hægt er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna, hverjir geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna, hvernig framkvæmdin á að vera og skyldur stjórnvalda til að fara eftir niðurstöðunni. Þess vegna styð ég ákvörðun forsetans þó að ég muni að öllum líkindum greiða atkvæði með Icesave samningnum. Að öðrum kosti væri ég ekki samkvæmur sjálfum mér.
Ef við skoðum afstöðu fólks til Icesave annars vegar og ákvörðunar forsetans hins vegar má búast við að dreifingin verði með eftirfarandi hætti:

Samþykkja Icesave Samþykkja ekki Icesave
Styðja ákvörðun forsetans
A
B
Styðja ekki ákvörðun forsetans
C
D


Ef við mundum renna einhverju úrtaki gegnum sk. kjí-kvaðrat próf, sem kannar hvort marktækur munur sé á dreifingunni eftir því hvort fólk samþykkir Icesave eður ei annars vegar og hvort það styður eða er mótfallið ákvörðun forsetans hins vegar má búast við að marktækt fleiri reyndust vera í reitum B og C en A og D. Mér finnst þetta bera vott um kökusyndrómið hjá þessari þjóð; að vilja bæði eiga kökuna og éta hana. Mér finnst t.d. umhugsunarvert að margir sjálfstæðismenn, sem alla tíð hafa verið á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, eru nú allt í einu "einlægir" stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar bara af því að þeir hafna Icesave samningnum. Eins þykir mér skjóta skökku við þegar sumir vinstrimenn, sem hafa verið talsmenn stóraukins vægis þjóðaratkvæðagreiðslna í íslenskum stjórnmálum, finna nú ákvöðun forsetans allt til foráttu bara af því að þeir eru fylgjandi Icesave samningnum.
Glöggt dæmi um þetta má sjá í skrifum Jóhanns Haukssonar, blaðamanns. Hann fer mikinn á bloggsíðu sinni og finnur ákvörðun ÓRG flest til foráttu og vitnar í löglærða menn , sem hann kýs þó að nafngreina ekki. Jóhann er hlynntur því að Icesave samningurinn verði samþykktur. Annað dæmi eru skrif Þorsteins Pálssonar, fyrrum formanns bankahrunsflokksins og forsætisráðherra. Hann tilheyrir þeim armi flokksins, sem vill samþykkja samninginn og er á móti ákvörðun forsetans.
Þessir menn tína til alls konar rök, m.a. að ákvörðun ÓRG hafi verið illa rökstudd, að hann sé farinn að taka geðþóttaákvarðanir um beitingu málskotsréttarins, að hann sé að gelda þing og þjóð o.s.frv.
Ekkert af þessu skiptir í raun máli. Það sem skiptir máli er hve 26. grein stjórnarskráinnar er galopin og í rauninni illa skrifuð og illa ígrunduð. Þar er t.d. ekkert um hvenær forsetinn getur beitt þessu ákvæði, þannig að sú ákvörðun er í rauninni alfarið sett í hans hendur. Rökin um geðþóttaákvörðun er því enn ein vísbendingin um brýna þörf á endurskoðun stjórnarskrárinnar, þ.m.t. á 26. greininni. Varðandi lélegan rökstuðning forsetans, þá get ég alveg verið sammála því að hann hefði mátt gera betur þar en það ber samt að sama brunni: Ákvæði stjórnarskrárinnar um málskotsrétt forsetans eru svo galopin að hann þarf ekki einu sinni að rökstyðja mál sitt!
Þá eru það rök ÞP að forsetinn sé að gelda ríkisstjórn og Alþingi og vangaveltur hans um að ríkisstjórnin eigi að setja sig að veði, þ.e. hóta afsögn verði Icesave samningurinn ekki samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er stórhættuleg afstaða en eins og við er að búast frá manni í flokki, sem er í raun á móti beinu lýðræði af öllum toga og vill t.d. ekki að þjóðin hafi neitt um stjórnarskrármálið að segja. Ef ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni fara frá verði lögin ekki samþykkt mun þjóðin greiða atkvæði um ríkisstjórnina en ekki Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl nk. Þar með er búið að setja stórhættulegt fordæmi, sem gæti mögulega eyðilagt framtíð þjóðaratkvæðagreiðslna í þessu landi. En það er kannski einmitt það, sem Þorsteinn vill.
Að lokum eru það rökin um að þjóðin eigi ekki að greiða atkvæði um (fjárhagslega) skuldbindandi milliríkjasamninga. Þessi rök haldi í rauninni ekki vatni - nema menn vilji í rauninni ekki að þjóðin hafi neitt um ESB samninginn að segja. Það er einmitt skuldbindandi milliríkjasamningur, m.a. fjárhagslega.
Eins og ég sagði í upphafi mun ég að öllum líkindum greiða atkvæði með Icesave í apríl. Þar sem ég er fylgjandi ákvörðun ÓRG fell ég í flokk A hér að ofan. Það er þá hvorki í fyrsta né síðasta skipti, sem ég fylgi ekki meginstraumunum. Hvers vegna ég ætla að samþykkja samingana er svo allt annað mál og kemur efni þessarar greinar í rauninni ekki við.
Ég hef aldrei kosið ÓRG í forsetakosningum. Hann sveik á mér kjarasamninga þegar hann var fjármálaráðherra í síðustu krataríkisstjórninni á undan fyrstu frjálshyggjuríkisstjórn Davíðs Oddssonar og það hef ég aldrei fyrirgefið honum. Ég vil þó taka fram að ég samþykkti ekki viðkomandi kjarasamning af því að ég þóttist þess fullviss að svona myndi fara. Nú eru hins vegr aðrir tímar.
Ég hef heyrt því fleygt að ÓRG hyggi á forsetaframboð í 5. sinn, líklega til að reyna að setja met í setu á forsetastóli. Nú horfir svo við að ég mun líklega kjósa hann ef ekkert hefur þokast í stjórnarskrármálunum varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur og enginn frambærilegri býður sig fram á móti honum, sem er líklegur til að vera sami öryggisventill fyrir þóðina og ÓRG hefur sýnt sig vera.
Að lokum er hér slóð á Icesave samninginn.

Húsavík, 27. febrúar 2011

Viðbót 12. mars 2011: Mér er ljúft og skylt að éta ofan í mig tilgátu mína hér að ofan um dreifingu afstöðu fólks til Icesave annars vegar og ákvörðunar ÓRG hins vegar. Það er einkar ánægjulegt að meirihluti þeirra, sem ætla að samþykkja Icesave styðja ákvörðun forsetans.



Efst á síðu


Sökudólgar og blórabögglar

Þegar bankahrunið varð á Íslandi gerðu stjórnvöld mikið úr því að ekki ætti að fara að leita að sökudólgum (og þaðan af síður blórabögglum) strax, heldur ætti að bíða með hvítþvottinn þar til síðar. Síðan hafa þessi sömu stjórnvöld keppst við að finna hrunadönsurum útgönguleiðir, þannig að þau (eru þau ekki 30 kk + 3 kvk?) tapi nú sem minnstu (og helst græði á öllu saman) og sleppi við alla ábyrgð. Athyglisvert hefur t.d. verið að íslensk stjórnvöld hafa alltaf vísað í heimskreppuna þegar ábyrgð á bankahruninu hér heima ber á góma.
Hér á blogginu hafa menn ýmist litið til hrunadansaranna/útrásarvíkinganna eða stjórnvalda og fjármálaeftirlits/seðlabanka þegar bankahrunið er skoðað (nema náttúrlega HHG, sem kennir slæmum kapítalistum um allt saman). Ég hef t.d. tekið eftir því að hægri sinnaðir bloggarar eru gáttaðir á því að aðrir skuli líta til stjórnvalda um ábyrgð frekar en útrásravíkinganna en á sama tíma er t.d. Evu Hauksdóttur úthúðað fyrir að vilja beina athyglinni að baugsveldinu, sem margur sk. kristinn bloggarinn virðist vera farinn að líkja við Jesú Jósefsson sjálfan.
Ég fyrir mitt leyti ætla að leyfa mér að brydda upp á öðrum sökudólgi. Ég lít reyndar svo á að útrásarvíkingarnir hafi gert nákvæmlega það, sem búast má við af gráðugum kapítalistum í skjóli laga og reglugerða, bæði hér á landi og skv. EES samningnum (sem við þurfum lífsnauðsynlega að segja upp). Enn fremur tel ég ekki að það breyti miklu þó að seðlabankastjóri eða einstaka ráðherrar séu látnir fara. það þýðir þó ekki að ég gráti það að þetta fólk sé sent heim til sín né heldur að ég styðji ekki baráttuna gegn baugsveldinu, bjöggunum o.s.frv.
Ég ætla sem sé að leyfa mér að stinga upp á þriðja, mögulega sökudólginum, nefnilega því auðvaldsskipulagi, sem við lifum og hrærumst í, kapítalismanum sjálfum. Þetta fyrirbæri tók við af lénsskipulaginu fyrr á öldum, oft með blóðugum byltingum og vissulega illskárra fyrir almenning en það sem á undan var. T.d. afnam kapítalisminn ánauð bænda og gerði þeim kleift að flytjast til hinna vaxandi iðnaðarborga og gerast þar iðnverkamenn á sultarlaunum með alveg jafn langan vinnutíma og forfeður þeirra, en á þessum uppvaxtarárum kapítalismans höfðu iðnverkamenn ekki öðlast neina stéttarvitund. Á þessum tíma voru engin stéttarfélög, engir lífeyrissjóðir, engar bætur af neinu tagi, ekkert félagslegt öryggisnet. Allt þetta kom miklu síðar og kostaði blóðuga baráttu verkafólks um allan hinn vestræna heim og skóp okkur það sem við köllum í dag í heimsku okkar eða hroka sjálfsögð mannréttindi.
Eftir að hafa arðrænt hver sem betur gat í sínu heimalandi skv. eigin löggjöfum (þingræðið er kapítalísk uppfinning til að tryggja að ríkið og ríkisstjórnin sé kapitalistanna - á þessum tímum höfðu eingöngu kapítalistarnir sjálfir og örfáir ríkir uppgjafa lénsherrar atkvæðisrétt og kjörgengi) fóru kapítalistarnir að líta til annarra landa, sér í lagi þeirra, sem landafundirnir miklu höfðu leitt í ljós og lágu nú óbætt hjá garði. Heimsvaldastefnan ruddi sér til rúms, þetta furðufyrirbæri, sem oft hefur skipt um andlit út á við en er enn við lýði (heitir útrás í dag) og Lenín kallaði "æðsta stig auðvaldsins". Eftir að hin evrópsku stórveldi höfðu skipt Afríku og stórum hluta Asíu á milli sín og meira var eiginlega ekki til skiptanna endaði þetta fyrsta tímabil heimsvaldastefnunnar í því uppskiptastríði, sem við köllum heimsstyrjöldina fyrri, sem beinlínis útrýmdi gömlum nýlenduveldum og breytti rótgrónum landamærum í Evrópu svo kortið varð vart þekkjanlegt.
Að þessu tímabili loknu var Evrópa í sárum og nýtt stjórnmálafyrirbæri hafði litið dagsins ljós í Rússlandi. 1917 handtóku bolsévíkar ríkisstjórn þjóðbyltingarmannsins Kerenskís og fyrsta sósíalíska ríkið leit dagsins ljós. Það var ekki nóg með að heimsvaldastefnan hafði beðið sitt fyrsta skipbrot, heldur var hér verið að reyna kenningar, sem Karl Marx og Friðrik Engels höfðu sett fram á 19. öld og gengu vægast sagt í berhögg við hin kapítalísku gildi. Svo fór að örla á kreppu í öllum hinum kapítalíska heimi, þeirri stærstu, sem peningastefnan hafði þekkt hingað til. Kapítalistarnir urðu skíthræddir og leituðu skjóls í því óhugnanlegasta fyrirbæri, sem þeir sjálfir þó skópu: fasismanum.
Fasisminn kom fram um alla Evrópu (þó að hann yrði þekktari í ákveðnum löndum þar sem hann náði yfirhöndinni). Má þar nefna Finnland, Eystrasaltsríkin, lönd á Balkanskaga og víðar. Þessi lönd voru talin útverðir kapítalismans gegn hinu sósíalíska ríki í austri og var lítið til sparað að efla herinn í þessum löndum. Í öðrum löndum báru hínar fasísku stefnur sigur úr býtum og var sums staðar beinlínis hjálpað til valda í blóðugum borgarastyrjöldum eins og á Spáni. Í öllum tilfellum sáu kapítalistar Evrópu og Bandaríkjanna fasismann sem bjargvætt stefnunnar og skipulagsins og um leið sem þann brimbrjót, er mala skyldi sósíalismann i austri mélinu smærra. Minna máli skipti þó að þau fáu borgaralegu réttindi, sem verkalýðurinn hafði þó áunnið sér væri afnuminn á einu bretti og þjóðir, þjóðabrot og ýmsir hópar samfélagsins nú kúgaðir svo sem aldrei hafði sést áður og jafnvel skipulega útrýmt. Það var ekki fyrr en nasistar fóru að ráðast á önnur kapítalísk lönd í Evrópu að ég tali nú ekki um stóru kapítalísku löndin eins og Frakkland og Bretland, að menn sáu að þeir höfðu alið nöðru sér við brjóst, sem eitthvað varð að gera við. Þegar Hitler loksins sneri sér í austur hafði hið nýja andlit heimsvaldastefnunnar leitt til sögulegs viðburðar, þ.e. bandalags Sovétríkjanna og bandamanna gegn afkvæmi þeirra síðarnefndu. Seinni heimsstyrjöldin var að sönnu ekki uppskiptastríð líkt og hin fyrri þó að hún bæri með sér ákveðið uppgjör í Evrópu. Hún markaði heldur ekki endalok fasismans sem öfgahægrisinnaðrar, kapítalískrar stjórnmálastefnu, þó að margir, t.d. HHG, vilji halda slíku fram. En hún skildi Evrópu eftir í slíkum sárum að þungamiðja heimsvaldastefnunnar færðist þaðan til Bandarikjanna. (Það má benda á að í Rússlandi kallar eldra fólk, sem man heimsstyrjöldina, hana "stóra stríðið").
Að lokinni seinni heimsstyrjöldinni tók kalda stríðið við að undirlagi Breta og Bandaríkjamanna með hernaðarbandalögum, vígbúnaðarkapphlaupum og áframhaldandi nýlendukúgun í anda gömlu heimsvaldastefnunnar - og þó. Kanar lærðu dálítið af sögu Evrópu. Í stað þess að vera sjálfir nýlenduherrar fóru þeir einfaldlega inn í löndin með hernaði og komu á fót þeim þóknanlegum leppstjórnum eða gerðu veikburða ríkisstjórnir nýfrjálsra ríkja svo gersamlega fjárhagslega háðar sér að þær gátu sig hvergi hrært án þeirra samþykkis og velþóknunar. Svo rammt kvað að þessu að ekki er laust við að eimi eftir af þessu enn mörgum árum eftir svokölluð endalok kalda stríðsins, sbr. Írak og Afganistan. Það verður að segjast eins og er að Sovétríkin sálugu villtust rækilega af og sögðu beinlínis skilið við leið sósíalismans í baráttunni um heimsyfirráðin á tímum kalda stríðsins og tileinkuðu sér grimmt aðferðir þeirrar stefnu, sem stofnandi þeirra kallaði á sínum tíma "æðsta stig auðvaldsins".
Að kalda stríðinu loknu (ef því er þá lokið - svo virðist nú ekki alltaf vera því að amk áróðursstríðið virðist oft í fullum gangi) tók við hægt og sígandi 4. stig heimsvaldastefnunnar, sem er vonandi að líða undir lok um þessar mundir með nýjustu útgáfu heimskreppunnar í boði kapítalismans. Þetta stig hafa kapítalistarnir sjálfir valið að kalla nýfrjálshyggju, en hún felst m.a. í eftirfarandi:
1. Öll ríkisfyrirtæki skulu seld - ríkið má/á ekki að taka þátt í atvinnurekstri. Þetta gildir jafnt um öryggisnet almennings eins og síma og útvarp sem og fjármálastofnanir.
2. Öll félagsleg þjónusta skal einkavædd. Þetta gildir jafnt um heilbrigðis-, mennta- og samgönguþjónustu.
3. Öll áunnin "sjálfsögð" mannréttindi, svo sem tryggingar, skulu afnumin í áföngum. Takið eftir að ég segi áföngum en það á að sjálfsögðu einnig við um liði 1 og 2 að ofan. Með því að gera þetta hææægt er ekki eins mikil hætta á að almenningur, sem er á plasti, rísi upp á afturlappirnar. Það sem fasisminn gerði strax gerir nýfrjálshyggjan smám saman.
4. Kapítalisminn - auðmagnið skal hnattvætt. Til þess að svo megi verða þarf yfirþjóðlegar valdastofnanir, sem hafa meiri völd en einstaka þjóðir. Stofnuð skulu þjóðabandalög til að tryggja að svo verði, svo sem ESB.
5. Á Íslandi skal kalla hnattvæðinguna útrás. Engin lög né reglur má setja, sem gætu hindrað útrásarvíkinga, enda þjóðin á klafa EES samningsins.
6. Ef bólan brestur skal gera allt, sem í valdi ríkisstjórnar kapítalistanna stendur til að hindra rannsókn á hruninu og til að útrásarvíkingarnir sleppi með hámarksgróða út úr öllu saman.
Þannig mætti lengi telja. Ef heimskreppan núverandi boðar endalok nýfrjálshyggjunnar táknar það ekki sjálfkrafa endalok heimsvaldastefnunar og þaðan af síður kapítalismans. Látið ykkur ekki detta eitt augnablik í hug að kapítalistarnir né ríkisstjórnir eða peningastjórnir þeirra muni læra neitt af reynslunni. Sagan sýnir einmitt að það hafa þeir aldrei gert. Það mun koma kreppa eftir þessa kreppu - nema ef við breytum algerlega um þjóðskipulag. Hinn sanni sökudólgur er kapítalisminn.

Fyrst birt á moggablogginu 25.12.2008

Efst á síðu


Ræða á 1. maí fundi Stefnu 2007

Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Í ár eru 90 ár liðin frá októberbyltingunni. Í dag er ein vika síðan hinn nýi zar bannaði bolsévíkaflokkinn og fyrirskipaði fjöldahandtökur vegna mótmæla tiltölulega áhrifalítils hóps mótmælenda. Maður spyr sig hvort von sé á nýjum blóðsunnudegi.
Þó að margt mætti finna að Sovétríkjunum sálugu fer ekki á milli mála að hin kapítalíska bylting með Jeltsín sáluga í fararbroddi hefur ekki fært rússnesku verkafólki betri kjör, meira frelsi né öryggi. Ekki verður betur séð að nýfrjálshyggjan hafi rutt sér til rúms í Rússlandi eins og víðast hvar í hinum vestræna heimi, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir launafólk þessara landa. Þessi stjórnmálastefna byggir á einkavæðingu velferðarkerfisins og er ekkert annað en afturhvarf til 19. aldar þegar félagsleg þjónusta þekktist varla. Með einkavæðingu opinberrar þjónustu skerðist hún og verður dýrari, þannig að hinir fátækari hafa ekki efni á henni. Ekki þarf að leita út fyrir landsteinana til að finna dæmi um þetta og við skulum ekki fara í grafgötur með að ferlinu er langt frá því lokið. Búið er að einkavæða bankana, fjarskiptakerfið að miklu leyti og einkavæðingin er hafin í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og vegakerfinu. Allt er þetta sagt nauðsynlegt vegna samkeppni og hagkvæmni, rétt eins og það eigi að vera þjóðhagslega hagkvæmt að vera veikur. Hvað varðar samkeppnina, þá sjáum við hana í verki hjá olíufélögunum og mjólkurstríðinu á síðasta ári en meðan á því stóð hækkuðu aðrar vörur í verði og að því loknu hækkuðu mjólkurvörur talsvert umfram það sem þær kostuðu áður.
Árið 1955 var merkilegt fyrir ýmissa hluta sakir. Í fyrsta lagi fæddist ég á því ári. Hitt er jafnvel merkilegra að það ár var haldið að því er ég best veit síðasta pólitíska verkfallið á Íslandi þegar margra vikna verkfall knúði Alþingi til að setja lög um atvinnuleysisbætur en sósíalistaflokkurinn hafði þá lagt fram frumvarp þess efnis árangurslaust í ein 11 ár. Í dag virðast margir, sem ekki eru svo heppnir að vera fæddir 1955 eða fyrr líta á atvinnuleysisbætur, almannatryggingar og fleiri grunnþætti velferðarkerfisins sem sjálfsögð mannréttindi en gleyma því að velferðarkerfið, sem byggt var upp á síðustu öld með pólitískri baráttu innan þings sem utan, stendur á brauðfótum svo ekki sé meira sagt á tímum nýfrjálshyggjunnar, einkavæðingarinnar og alþjóðavæðingar auðmagnsins. Við sem eldri erum verðum að vera dugleg að uppfræða unga fólkið um baráttuna fyrir velferðarkerfinu, sem það telur svo sjálfsagt, og gera því grein fyrir að verði ekkert að gert kunnum við að sitja uppi með einkavætt heilbrigðis- og menntakerfi eftir nokkur ár.
Ég minntist áðan á alþjóðavæðingu auðmagnsins, sem er ekkert annað en skilgetið afsprengi heimsvaldastefnunnar eins og hún birtist Lenín í upphafi síðustu aldar. þá höfðu hin vestrænu ríki skipt afganginum af heiminum á milli sín í svokallaðar nýlendur og voru á leiðinni í uppskiptastríð þar sem ekkert var afgangs af kökunni. Við sem eldri erum munum eftir fyrirbæri því sem nýlenduvörubúðir kölluðust. Þar mátti fá kaffi, te og kakó og fleiri suðrænar vörur en hversu margir skyldu hafa gert sér grein fyrir alvörunni á bak við nafngift búðanna?
Heimsvaldastefnan hafði þá og hefur enn þótt hún hafi margoft haft fataskipti, skelfilegar afleiðingar fyrir hin svokölluðu þriðjaheims ríki, sem haldið hefur verið í járngreipum allar götur síðan, fyrst sem eign nýlenduherranna en síðar með óyfirstíganlegum skuldum og ýmiss konar svokölluðum alþjóðasamningum, sem tryggja hinum vestrænu heimsvaldhöfum óbreytt ástand.
Það þurfti hvorki meira né minna en tvær heimsstyrjaldir til að auðvaldið leitaði nýrra leiða í uppskiptingu heimsins. Fyrst á dagskrá var þó að einangra Sovétríkin með járntjaldi um þvera Evrópu úr því að Hitler tókst ekki að afmá þau af yfirborði jarðar. Á meðan Evrópuríkin voru í sárum sáu Bandaríkin sér leik á borði og fóru að koma sér upp leppríkjum, ýmist með valdi, Marshall aðstoð eða herstöðvasamningum. Afl þeirra í heimspólitíkinni óx gífurlega á skömmum tíma og hin gömlu nýlenduveldi Evrópu gátu lítið að gert. En menn voru ekki alveg af baki dottnir. Á 6. áratugnum stofnuðu helstu iðnríki Vestur-Evrópu með sér kola- og stálbandalag, sem var fyrsti vísirinn að því sem síðar nefndist Efnahagsbandalag Evrópu og er í dag kallað Evrópusambandið. Þessi óskapnaður stendur fyrir ofan lög og reglur einstakra aðildarríkja og virðist geta sett þeim reglugerðir nánast að vild. Ýmsir ráðamenn hér á landi, bæði stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar, líta þessi samtök hýru auga og vilja ekkert frekar en að selja sjálfstæði landsins í hendur Evrópustórveldanna, sem ráða stefnu sambandsins meira og minna. Það væri nú ekki ónýtt að geta tekið við reglugerðum frá Brussel í stað þess að þurfa að berjast hér heima fyrir bættum hag almennings, baráttu sem virðist að mati verkalýðsforystunnar og sumra stjórnmálamanna hvort sem er töpuð.
Ef betur er að gáð er hið evrópska afsprengi alþjóðavæðingar auðmagnsins ekki sú draumaveröld, sem nokkrir íslenskir stjórnmálamenn halda fram. Í löndum þess er mikið atvinnuleysi, sérstaklega hjá ungu fólki, og fer vaxandi. Sambandið setur staðla um hin aðskiljanlegustu fyrirbæri náttúrunnar, svo sem bananabognun, en minna fer fyrir stöðlum um vægi opinberrar þjónustu annars vegar og einkavæðingar hins vegar. Í Brussel er Tyrkjum sett skilyrði um inngöngu, sem er svo sem gott mál, en um leið neitar mannréttindanefnd sambandsins allri aðstoð við Palestínumenn á forsendum síonistanna í Ísrael og Bandaríkjunum. Norðmenn viðurkenndu nýju heimastjórnina fyrstir þjóða og fengu víða bágt fyrir. Skyldu þeir hafa getað tekið svo sjálfstæða ákvörðun ef þeir væru innan Evrópusambandsins?
Alls staðar þar sem alþjóðavæðingar auðmagnsins gætir má sjá heimslögguna ýmist stjórnandi á bak við tjöldin eða í blygðunarlausri forystu. Afganistan var ekkert annað en stökkpallur yfir í Írak, sýndarstríð gegn hryðjuverkum svo almenningur mundi betur sætta sig við olíustríðið. Í nafni baráttu gegn hryðjuverkum hafa flugfarþegar verið sviptir frelsinu fyrir það sem er ekkert annað en sýndaröryggi, tafir og óþægindi. Sett eru í lög ýmiss konar frelsistakmarkanir, t.d. varðandi réttinn til mótmæla, svo sem vart hefur orðið við hér á landi varðandi Kárahnúkahneykslið. Þá er fylgst með borgurunum sem aldrei fyrr, allt fyrir öryggið – en öryggi hverra? Frelsisskerðing borgaranna nær ekki til stjórnvalda. Þeim er áfram frjálst að skipa löndum á bekk hinna staðföstu, vestrænu ríkja, sem enn geta rænt löndum og skipt um ríkisstjórnir eftir geðþótta auðmagnsins.
Já, auðmagnið ræður svo sannarlega ríkjum í heiminum enn þann dag í dag. Stelur og selur lönd, rekur og ræður ríkisstjórnir. En á bak við auðmagnið eru eigendur þess og þegar öllu er á botninn hvolft er ríkisvaldið á hverjum stað og tíma ekkert annað en tæki ráðandi stétta til að halda niðri öðrum stéttum þjóðfélagsins – og í öðrum ríkjum ef svo ber undir. Auðvaldið byggir vald sitt á einkaeignarréttinum á framleiðslutækjum þjóðanna, svo siðlaust sem það nú er. Verðmæti vöru felst í frumvinnslu og síðvinnslu hennar, þ.e. öllum þeim ferlum sem búa hana til og gera hana verðmætari. Öll sú vinna, sem lögð er í vörumyndun og vöruþróun er eign kapítalistanna, við fáum eingöngu að selja þeim vinnuafl okkar.
Í dag er 1. maí, áður alþjóðlegur baráttudagur verkafólks en nú skilst mér að hann sé ýmist kallaður frídagur eða í besta falli hátíðardagur. Mér skilst að stéttarfélögin á Akureyri standi fyrir happdrættisgöngu í dag því að annars mundu allir sitja heima á útborgunardegi að keppast við að velta VISAnu á undan sér og kannski að hugleiða atkvæðið sitt 12. maí.
Góðir félagar. Alþjóðavæðing auðmagnsins er raunveruleg ógnun við heimsfriðinn, náttúruna og velferð mannkyns. Ef við fljótum sofandi að feigðarósi er hætt við að afkomendur okkar vakni upp við það að velferðarkerfið heyri sögunni til. Sagan hefur margsýnt að sú leið að reyna að lappa upp á galla hins kapítalíska þjóðskipulags og stoppa í götin dugar engan veginn.

Öreigar allra landa sameinist!
Efst á síðu


Leiðari Norðurstjörnunnar 1. maí 2006

Nú er tæpur mánuður til sveitarstjórnarkosninga og flestir framboðslistar komnir fram. Þegar stefnumál flestra framboða eru skoðuð kemur í ljós að allir ætla að gera enn betur á næsta kjörtímabili, sama hvort þeir eru í meirihluta í sveitarstjórnum eða ekki. Það á að fjölga atvinnutækifærum, auka þjónustu við almenning o.s.frv. Allt kostar þetta peninga og miðað við núverandi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er vandséð hvernig minni sveitarfélög í landinu geta aukið þjónustustigið frá því sem nú er. Kannski eiga sum sveitarfélögin eitthvað til að selja upp í skuldir en einhvern tíma kemur að því að seljanlegar eignir verða upp urnar og hvað á þá til bragðs að taka?
Á sama tíma er talað um að færa enn fleiri málaflokka frá ríkinu til sveitarfélaganna í landinu, svo sem heilbrigðisþjónustuna eins og hún leggur sig! Allir muna eftir flutningi grunnskólans en þeirri aðgerð fylgdi ekki nægjanlegt fjármagn þannig að reksturinn er vægast sagt í járnum í mörgum hinna minni sveitarfélaga.
Fyrir utan stærstu sveitarfélögin í landinu er þeim lífnauðsynlegt að tekjuskiptingunni verði breytt þannig að hlutfall þeirra í skattprósentunni verði stóraukið. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur lagt fram frumvarp um þetta mál á Alþingi þar sem lagt er til að í stað 1% viðbótarskattalækkunar fari þetta eina prósent yfir á sveitarfélögin og verði þeim í sjálfsvald sett hvort ðau nýta þetta til fulls eða að hluta. Eins og nærri má geta hefur þetta frumvarp ekki átt góðu gengi að fagna þar sem flestir flokkar á Alþingi syngja skattalækkunarkórinn einum rómi meðan ríkisstjórnin hækkar álögur á þegnana, svo sem komugjöld á heilsugæslustöðvar, þannig að skattalækkunin er fyrir bí og oft vel það fyrir venjulegt launafólk.
Eins og fyrri daginn er augljóslega ekki nóg að barist sé fyrir góðum málum á Alþingi Íslendinga. Í komandi sveitarstjórnarkosingum leggjur Vinstrihreyfingin - grænt framboð áherslu á að barist verði fyrir réttlátari tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga innan Sambands Íslenskra Sveitarfélaga. Sambandið verður að þrýsta á ríkisvaldið um breytingar á skatthlutfallinu, þannig að sveitarfélögin geti rekið þá grunnþjónustu við almenning, sem þeim ber að veita skv. lögum hverju sinni, með sóma.
Vinstri græn bjóða fram með dugmikið fólk í mörgum sveitarfélögum með V-lista eða í samvinnu við aðra. Það er mikilvægt að raddir umhverfisverndar, félagshyggju, femínisma og skynsemi fái hljómgrunn í bæjar- og sveitarstjórnum. Við getum lagt okkar af mörkum til að svo megi verða og vinna vel fram að kosningum. Þá munum við uppskera sigur þann 27. maí.

Björgvin Leifsson og Hlynur Hallsson


Efst á síðu

1. maí - alþjóðlegur baráttudagur verkafólks.

Svo hafa spakir, djúpvitrir og óljúgfróðir öldungar tjáð mér ungum að í gamla daga hafi þessi dagur risið undir ofangreindu nafni. Í þá daga voru haldnir baráttufundir og gengnar kröfugöngur vítt um landið. Verkalýðshreyfingin, sem þá starfaði oft í nánum tengslum við stjórnmálaflokka, sem létu sig hagi alþýðunnar einhverju skipta, setti fram bæði pólitískar kröfur og launakröfur og virkjaði stéttarfélögin til stéttabaráttu gegn hagsmunum auðvaldsins. Ýmis núverandi réttindi launafólks, sem margir telja sjálfsögð mannréttindi í dag, náðust fram á þessum tíma með mikilli og harðri baráttu fólksins. Má þar nefna almannatryggingakerfið og atvinnuleysistryggingar sem dæmi. Þessi "sjálfsögðu" réttindi fengust ekki samþykkt á Alþingi fyrr en eftir langa og stranga baráttu innan þings sem utan og þurfti raunar stundum allsherjarverkföll í langan tíma til. Á þessum tímum voru launakröfur verkalýðsins óháðar launabaráttu annarra stétta í þjóðfélaginu og ekki litið til þess hvort aðrir hópar fengju nokkrum krónum meira eða minna.
Þótt ég sé of ungur til að muna þessa tíma man ég samt nógu langt aftur til að geta rifjað upp raunverulegar kröfugöngur og baráttufundi. Þar má nefna kröfuna um 100.000 króna lágmarkslaun á áttunda áratug síðustu aldar og var ekki hvikað frá þessari kröfu í komandi samningum. Að vísu söknuðu margir kröfu um lífvænleg laun fyrir dagvinnu en verkalýðsforystan á þessum tíma má þó eiga það að hafa sett fram raunverulega kröfu og ekki hvikað frá henni.
Þegar þetta er skrifað er rétt vika til 1. maí. Ekki hefur mikið borið á kröfugerðum frá ASÍ forystunni né verkalýðsfélögunum nema ef vera skyldi að þær verði gjörðar heyrinkunnar á baráttudeginum sjálfum. Enda varla tími til kröfugerða þar sem verkalýðsforkólfarnir eru í óða önn að undirbúa skemmtidagskrár vítt og breitt um land en minna fer fyrir baráttufundum svo maður tali nú ekki um kröfugöngur. Á meðan ASÍ forystan bíður þess að við göngum í Evrópusambandið, svo þeir geti tekið við skipunum að ofan og þurfi ekki að hugsa of mikið um hag sinna umbjóðenda, fer auðvaldið sínu fram sem aldrei fyrr, stutt af íhaldsflokkunum í ríkisstjórn íslenskra atvinnurekenda og er ekki örgrannt um að ónefndur krataflokkur í forystukreppu láti stundum hjá líða að standa við hlið íslenskrar alþýðu, sem hann kenndi sig við hér áður fyrr.
Svo virðist sem helsta baráttumál verkalýðsforystunnar í dag sé að vera launalögga auðvaldsins. Í stað þess að setja fram raunverulegar kröfur fyrir sína umbjóðendur og berjast fyrir þeim horfa forkólfarnir helst til launa annarra þjóðfélagshópa og láta sig mestu varða ef þeir ná fram kjarabótum. Þá er rekið upp ramakvein og mætti stundum halda að launamenn utan ASÍ séu hinn raunverulegi óvinur. Svone rétt eins og lágu launin, sem þeir hafa í samráði við atvinnurekendur ákveðið að skammta sínu fólki batni eitthvað við það að aðrir fái ekki meira og helst minna. Á meðan ASÍ bíður eftir Stór-Evrópskum lausnum fer auðvaldið sínu fram óáreitt. Með frjálshyggjuna að vopni er einkavætt vítt og breitt og eigur almennings seldar fáeinum útvöldum. Lög eru sett á lög ofan til að takmarka eða helst ná til baka réttindum, sem alþýða þessa lands hefur áunnið sér gengum langa baráttu og er þetta ýmist í nafni frelsis eða öryggis eftir því hvort hentar hverju sinni. Allt eru þetta svo kallaðar framfarir þótt ekki sé um annað að ræða en afturhvarf til 19. aldar þegar auðvaldið réð öllu því sem það vildi ráða og átti allt það sem það vildi eiga.
Það er löngu kominn tími til að fara að spyrna við fótum. Verði ekkert að gert munum við vakna upp við það einn góðan veðurdag að búið verður að einkavæða mennta- og heilbrigðiskerfið. Reyndar er sú þróun þegar hafin og er slæmt til þess að vita að hinn ónefndi krataflokkur skuli ljá máls á einkavæðingu í þessum efnum. Við verðum að setja fram kröfur um að allri einkavæðingu verði hætt nú þegar og standa við þær með þeirri baráttu sem til þarf. Slíkt næst aðeins fram með fullkominni samstöðu vinnandi stétta í landinu burtséð frá því hvaða samtökum þær tilheyra. Enn fremur verður að vera um þetta samstaða milli stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi en slíkt gerist ekki nema þingmenn þeirra finni að þeir hafi raunverulegt bakland meðal fólksins. Þá er nauðsynlegt að ná til baka þeim réttindum, sem auðvaldið er búið að taka af okkur gegnum sína flokka í ríkisstjórn en til þess þarf ríkisstjórn, sem lætur sig velferð almennings til lengri tíma meira skipta en skammtímahagsmuni eigin flokka. Slík ríkisstjórn fæst ekki eingöngu upp úr kjörkössunum. Hún verður að hafa “Alþingi” götunnar á bak við sig. Það dugar ekki fyrir almenning að gerast “pólitískur” mánuði fyrir kosningar en sitja heima og kvarta þess á milli.
Þess er óskandi að við sem erum komin um eða yfir miðjan aldur lifum það að sjá 1. maí dreginn úr þeim dróma, sem hann hefur verið í alltof lengi. Nú er talað um “verkalýðsdaginn”, “frídag verkamanna” eða jafnvel “hátíðardag verkamanna”. Enginn talar um þennan dag lengur sem baráttudag. Þetta er þeim mun dapurlegra fyrir þær sakir að þörfin fyrir samstöðu vinnandi stétta gegn ásælni auðvaldsins og jafnvel á stundum hálffasískum tilburðum er síst minni nú en oft áður. Verkafólk og aðrir launþegar þessa lands hafa ekki margar ástæður til að halda hátíð. Ekki er sigrunum fyrir að fara, hvorki í launabaráttunni né hinni eilífu pólitísku baráttu fyrir réttindum almennings. Hvorki “Nallinn” í útvarpinu né skemmtikraftar á hátíðardagskrám munu færa okkur betri kjör á silfurfati. Við verðum sjálf að berjast fyrir bættum kjörum, auknum réttindum, gegn einkavæðingu, lögum sem skerða áður áunnin réttindi og svo framvegis. Það gerir það enginn fyrir okkur.

Gerum 1. maí aftur að baráttudegi!

Björgvin R. Leifsson, formaður Svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi grein birtist í Norðustjörnunni, málgagni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi 1. maí 2005.

Efst á síðu


Jólaglaðningur


Ríkisstjórn íslenskra atvinnurekenda gerir það ekki endasleppt við alþýðu manna fyrir þessi jól frekar en venjulega. Loksins, loksins ætlar hún að byrja að efna skattalækkunarkosningaloforðið. Strax eftir áramótin fá launþegar þessa lands að finna smjörþefinn af dýrðinni. Til að byrja með á að hækka bifreiðagjöld um 3,5%. Svo á að hækka skólagjöld háskólanna og varla má búast við að komugjöld á heilsugæslustofnanir verði útundan. Ef við verðum ljónheppin gæti undirbúningur fyrir legugjöld á sjúkrahúsum jafnvel byrjað á næsta ári. Þvílík kjarabót!

Mikið brá mér þegar sjómenn fengu að semja við útgerðina án þess að fá á sig lög. Ég hélt satt að segja á tímabili að blessuð ríkisstjórnin væri að missa flugið í viðhaldi stöðugleikans. Sem betur fer reyndist þessi ótti ekki á rökum reistur. Önnur stétt vinnandi fólks var nefnilega í verkfalli og ekki talið ganga að setja lög á tvær heilar stéttir í einu, enda hefur Alþjóða Vinnumálasambandið víst eitthvað verið að skipta sér af okkar innanríkismálum. Ég hugsa að yngri grunnskólabörn og foreldrar þeirra hljóti nú þegar að vera farin að hlakka til ársins 2008 þegar nýgerðir, frjálsir kjarasamningar grunnskólakennara renna út.

Alveg er það magnað hvað einkabankarnir eru allt í einu orðnir góðir við landslýð. Allir geta fengið eins há lán og þeir vilja á vöxtum, sem virðast fara lækkandi með hverri auglýsingunni og breytir þá litlu hvort nota á allt lánið til húsnæðiskaupa eður ei. Ætli þessi lán séu nokkuð vísitölutryggð? Ég er að spá í að fá mér svona eins og 10 millur út stighækkandi markaðsverð hússins, sem ég leigi nú þegar af bankakerfinu. Þá get ég endurnýjað bílinn, tölvuna, innbúið og kannski átt eftir fyrir eins og einni heimsreisu. Ætli maður þurfi nokkuð að borga af þessum lánum?

Illa var farið með höndina, sem fæðir bílana okkar á árinu. Himinháar sektir fyrir það eitt að fylgja heimsmarkaðsverði. Það er nú gott að olíufélögin eru búin að biðjast afsökunar, þau geta þá væntanlega haldið áfram samstíga hækkunum á bensínverði óáreitt. Ætli verðlækkanir séu ekki samráð líka?

Alveg held ég að það sé nauðsynlegt að koma hér upp öryggislögreglu hið allra fyrsta. Það hefði nú ekki verið ónýtt að hafa svoleiðis apparat í haust þegar einhverjir forkólfar sjómanna fóru að skipta sér af einstökum samningi skipsáhafnar á Akureyri við útgerðarmanninn sinn. Alveg get ég séð fyrir mér svona ö-löggu berja niður mótmælaaðgerðir af aðskiljanlegasta tagi, til dæmis öll þessi læti í Ólafi Hannibalssyni og hans kátu köppum. Þá er nú ekki ónýtt að vera kominn með hervísi í Afganistan, vonandi sjáum við hermennina okkar sem fyrst í Írak að skemmta sér í fangelsum þar í landi.

Það er flott hjá ríkisstjórninni að eyða ekki skattpeningum borgaranna í þessa mannréttindaskrifstofu. Þá er t.d. meira afgangs til að byggja nýtt sendiráð í Þýskalandi. Enda skilst mér að þessi skrifstofa starfi m.a. í þágu útlendinga sem vilja setjast að í landinu okkar þ.e. ef þeim tekst að komast fram hjá útlendingaeftirlitinu, sem stendur sína vakt eins og landvættirnar forðum. Þetta gildir þó að sjálfsögðu ekki ef nota þarf mannskapinn til að reisa stíflur og álver.

Með nýjárskveðju til ríkisstjórnar íslenskra atvinnurekenda,

Björgvin R. Leifsson, formaður Svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi grein birtist í Norðustjörnunni, málgagni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi fyrir jólin 2004.


Efst á síðu

Fjölmiðlafrumvarpið


Það er út af fyrir sig merkilegt að fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar skuli fá meira pláss í fréttum og á Alþingi en útlendingalögin og lögin gegn atvinnuöryggi opinberra starfsmanna. En látum það liggja á milli hluta. Það vita allir sem vilja að fjölmiðlafrumvarpið beinist fyrst og fremst gegn ákveðnu fyrirtæki í persónulegri krossferð forsætisráðherra íslenskra atvinnurekenda gegn Baugsveldinu eða öllu heldur Baugsfeðgum. En er það ekki bara allt í lagi? Ef það verður til þess að Baugur missir ægivald sitt í íslenskum fjölmiðlaheimi, þá sé ég bara ekkert athugavert við það. Miklu nær væri fyrir vinstrimenn, sem ættu að vera andvígir allri samþjöppun valds, að styðja frumvarpið með ákveðnum breytingum. Í fyrsta lagi að breyta frumvarpinu í frumvarp til laga gegn auðhringum og auðhringamyndun. Í annan stað að setja lög um þjóðnýtingu banka, olíufélaga og fiskveiðikvóta. Í þriðja lagi að segja Ísland úr EES. Og í fjórða lagi að breyta stjórnarskránni þannig að einkaeignarréttur á framleiðslutækjum þjóðarinnar verði afnuminn. Úr því að Dabbi er orðinn svona mikill sósíalisti er um að gera að hamra járnið....

8.5.2004

Efst á síðu


Brún hönd í bláum hanska


Ég hef ferðast töluvert um íslenska hálendið og oft dáðst að fagurbláum fjallavötnum, þó ég viti vel að eftir því sem vatnið er blárra, þeim mun minni gróður er í því og þar með lífríki vatnsins rýrara. Stundum hef ég veitt því athygli á uppblásturssvæðum hálendisins þegar sandur og mold fjúka á vötnin en þá færist yfir þau heldur ljót, brún slikja.
Oft heyrist talað um hina bláu hönd íhaldsins, sem voki yfir öllu þjóðfélaginu. Fyrir löngu síðan las ég bók eftir franska blaðamanninn og rithöfundinn André Simone. Bókin hét Evrópa á glapstigum og kom út árið 1942. Í bókinn reifar höfundur uppgang fasismans í Evrópu og lítur yfir sviðið eins og það kom fyrir sjónir á útgáfuárinu. Hann minnir á að það hafi gerst sem ýmsir rithöfundar, stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar og fleiri vöruðu við í ræðu og riti en töluðu fyrir gersamlega daufum eyrum.
Fyrir mörgum árum ræddum við félagi minn þessa myrku tíma í sögu Evrópu og veltum fyrir okkur hvaða leiðir íhald allra landa myndi fara næst þegar því þætti nóg um uppgang lágstéttanna, nóg komið af félagslegum réttindum og fullmikið um sjálfstæðisbaráttu þjóðanna. Þetta mun hafa verið áður en nýfrjálshyggjan ruddi sér til rúms þó að maður væri svo sem farinn að kynnast forsmekkinum af því sem koma skyldi, svo sem Thatcherismanum í Bretlandi. Við vorum sammála um að við myndum sjá nýjar leiðir, ekki yrðu farnar troðnar slóðir, sem hefðu misheppnast og auðvelt væri að sjá við af fyrri reynslu.
Til að byrja með virtist allt tiltölulega sakleysislegt á yfirborðinu. Einkavæðingar hér og þar og þó að vinstrimenn allra landa vöruðu við þróuninni var lítið hlustað á þá, þetta væru nýir tímar frelsisins. Svo liðuðust Sovétríkin í sundur og alþjóðalögga NATO og Bandaríkjanna sat ein að heiminum.
Allt of langt mál yrði að rifja allt það upp sem gerst hefur í alþjóðamálum og á Íslandi á þessum tíma og því skulum við líta yfir sviðið eins og það er í dag. Á alþjóðavettvangi er bandaríska heimsvaldastefnan allsráðandi með góðum stuðningi hinna "staðföstu þjóða". Í Ísrael fara síonistar (eða síonasistar eins og ég vil kalla þá) sínu fram. Kanar eru í "fyrirbyggjandi" stríðum gegn hryðjuverkum í Afganistan og Írak og aldrei að vita hvert þeir beina haukfránum augum næst. Á meðan fara íhaldsöflin sínu fram í Evrópu og Bandaríkjunum, nú undir nafni öryggis en ekki frelsis því eins og allir vita fer frelsi og öryggi ekki saman í auðvaldsheiminum.
Á Íslandi hafa verið sett lög gegn fjöldauppsögnum. Í undirbúningi eru fasísk útlendingalög og lög gegn atvinnuöryggi opinberra starfsmanna. Efla á víkingasveit lögreglunnar og helst að koma upp "her", en þetta tvennt mætti svo nota gegn borgurum landsins eins hverjar aðrar stormsveitir, allt í nafni frelsis eða öryggis eftir því sem hentar áróðurslega hverju sinni. Rýmka á leyfi lögreglunnar til símahleranna og þarf þá ekki dómsúrskurð til. Áfram á að lækka skatta, sérstaklega á stórfyrirtæki, sem þýðir að minna verður eftir til að setja í menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngur, o.sfrv. Svona mætti lengi telja en útkoman er stórskert réttindi launafólks og alþýðu þessa lands, réttindi, sem mörg okkar telja sjálfsögð mannréttindi í dag en eru það alls ekki í augum íhaldsins!
Það er verið að lauma fasismanum inn bakdyramegin í hinum vestræna heimi í skjóli neyslukapphlaupsins. Brúna höndin er að taka af sér bláa hanskann.

8.5.2004

Efst á síðu

Fúl á móti?


Síðan Vinstrihreyfingin - grænt framboð var stofnuð snemma árs 1999 hafa andstæðingar flokksins fundið honum helst til foráttu að vera á móti öllu mögulegu og ómögulegu. Á mjög ómálefnalegan hátt hefur þeim tekist að “gleyma” þeim einföldu sannindum að um leið og við erum á móti þeirra lausnum í hinum ýmsu málaflokkum erum við um leið með öðrum lausnum - lausnum í anda vinstri stefnu, velferðar, samfélagsþjónustu, umhverfisverndar, friðar og jafnréttis.

Með vistvænni orku og orkuvinnslu

Þó að vatnsaflsvirkjanir séu ekki mengandi er langt frá því að þær séu umhverfisvænar. Á seinni árum hafa umhverfisáhrif miðlunarlóna komið æ betur í ljós og hér á landi stuðla þau að auknum uppblæstri á hálendinu en valda svokölluðum bakvatnsáhrifum víða á láglendi, t.d. í Lagarfljótsvirkjun þar sem tún hafa blotnað upp út frá miðlunarlóninu. Ekki verður hjá því komist að nefna eyðingu búsvæða en t.d. svokölluð Norðlingaölduveita, sem væri nær að kalla Þjórsárveraveitu, mun eyða stórum hluta af helsta búsvæði stærsta heiðagæsastofns í heiminum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill stórauka nýtingu gufuafls á Íslandi í stað vatnsaflsins. Við styðjum t.d. stækkun Kröfluvirkjunar og Nesjavallaveitu og byggingu gufuaflsvirkjunar á Þeistareykjum ef næg orka finnst á svæðinu.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill flýta rannsóknum á vetnisframleiðslu á Íslandi eins og kostur er og styður allar hugmyndir um nýtingu vistvænni orkugjafa en olíu á bíla- og skipaflota landsmanna.

Með nýsköpun í atvinnu, með smáum og meðalstórum fyrirtækjum

Á Íslandi hefur lengi verið þekktur málshátturinn um of mörg egg í einni körfu. Stóriðjustefna ríkisstjórnarflokkanna snýst um að gera Ísland að álbræðslu heimsins með mjög varasömum áhrifum á efnahagslíf þjóðarinnar fyrir utan hina miklu loftmengun sem af þessum iðnaði hlýst en loftmengun þekkir engin landamæri þrátt fyrir svokallaða mengunarkvóta. Nú síðast eru uppi hugmyndir um að nýta hina vistvænu orku frá Þeistareykjum til súrálsframleiðslu á Húsavík en súrálsframleiðsla er töluvert meira mengandi en álframleiðsla og auk þess bætist við mikil þurrefnamengun í formi ónothæfs leirs. Þessi leir er mjög fínkornóttur og nýtist ekki sem jarðvegur né heldur er nein eftirspurn eftir múrsteinum úr honum í heiminum. Verði leirinn ekki urðaður (hvar?) mun hann valda miklum umhverfisspjöllum vegna foks, bæði á landi og í sjó. Þá er ótalinn hinn mikli flutningskostnaður á hráefninu hingað til lands en sá kostnaður er svo mikill að flestar súrálsverksmiðjur heimsins eru byggðar við hliðina á námunum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill stórauka nýsköpun í íslensku atvinnlífi og styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Vaxtarbroddarnir eru margir og möguleikarnir miklir en það er erfitt að koma auga á þá fyrir álglýjunni. Á seinni árum hafa mörg smáfyrirtæki vaxið upp og dafnað býsna vel án ríkisábyrgða og jafnvel orðið stórum fyrirtækjum á heimsmælikvarða, svo sem Össur og Atlanta. Nota ætti t.d. orkuna á Þeistareykjum til stóreflingar matvælavinnslu á Húsavík, aukinnar ylræktar í Þingeyjasýslum, fiskeldis, umbúðaverksmiðju og ræktunar suðrænna tegunda dýra og plantna svo eitthvað sé nefnt. Enn fremur mætti nota tækifærið og efla rannsóknir á útflutningi á raforku.

Með velferð og samfélagsþjónustu

Einkavæðingarstefna hægri flokkanna hefur leitt til þess að velferð og samfélagsþjónusta hefur stórskerst og orðið dýrari á undanförnum árum og erum við þá fallin í sömu gryfju og ýmsar erlendar þjóðir sem reynt hafa nýfrjálshyggjuna, t.a.m. Bretland og Nýja-Sjáland. Fyrir okkur á norðausturhorninu nægir að nefna skerðingu á þjónustu pósts, síma og banka þrátt fyrir stóraukin þjónustugjöld þessara þjónustuaðila. Eitt það nýjasta er seðilgjald sem t.d. hjá landssímanum hefur hækkað úr kr. 95 í 150 á örfáum mánuðum og er það reyndar með ólíkindum að viðskiptavinurinn eigi að bera kostnað fyrirtækja við innheimtu. Annað ágætt dæmi um misheppnaðan einkarekstur er Áslandsskóli í Hafnarfirði þar sem allt hefur logað í illdeilum frá upphafi.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill að almanna- og velferðarþjónusta sé í almenningseign. Reynslan sýnir að aðeins þannig getum við tryggt þegnum landsins sjálfsögð mannréttindi eins og óskertan aðgang að heilbrigðiskerfinu burtséð frá efnahag fólks.

Með friðsamlegum lausnum á alþjóðadeilum

Þegar Kosovodeilan stóð sem hæst var Vinstrihreyfingin - grænt framboð eina íslenska stjórnmálaaflið sem tók afstöðu gegn hernaðaríhlutun NATO. Mér segir svo hugur að fari Kanar og Bretar undir forystu íhaldsmannanna Bush og Blair inn í Írak verði fátt um mótmæli í öðrum stjórnmálaherbúðum á Íslandi.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill að alþjóðleg deilumál verði leyst við samningaborðið en ekki með vopnavaldi. Fyrir utan Íraksdeiluna, sem er ekkert annað en olíustríð, má nefna ástandið í Ísrael sem er bein afleiðing af stuðningi vesturveldanna við landtökustefnu Ísraela. Þvinga verður Ísrael að samningaborðinu með einangrun á alþjóðavettvangi og að Bush/Blair hætti samstundis öllum stuðningi við lífsrýmislausnir síonasistanna.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð varð til í kjölfar mikilla hræringa á vinstri armi íslenskra stjórnmála. Hreyfingin er enn þá ung að árum en hefur samt náð að hasla sér völl á stjórnmálasviðinu þrátt fyrir hrakspár stjórnmálafræðinga og fleiri spádómsgáfnaljósa um annað. Á þessum árum sem liðin eru frá stofnun flokksins hefur eftir því verið tekið að Vinstrihreyfingin - grænt framboð er samkvæm sjálfri sér. Við segjum ekki eitt á einum stað en annað annars staðar eftir því hvaðan vindurinn blæs. Í komandi kosningum munu frambjóðendur flokksins bjóða fram stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs en ekki tala í kosningaklisjum sem oft eiga ekkert skylt við stefnuskrá viðkomandi flokks. Vinstrihreyfingin - grænt framboð mun áfram berjast fyrir því að Ísland standi utan hernaðarbandalaga, hún mun áfram berjast fyrir sjálfstæði landsins gegn landsölustefnu ESB sinnanna og hún mun áfram berjast fyrir gerbreyttri stefnu í umhverfismálum.

Björgvin R. Leifsson
formaður Svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Suður-Þingeyjarsýslu
Þessi grein birtist í Norðurstjörnunni, málgagni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðurlandskjördæmi eystra fyrir jólin 2002.


Efst á síðu

Nýjárshugleiðing

Þegar þetta er skrifað eiga a.m.k. þrjár stéttir í harðri kjarabaráttu. Segja má að kjarabaráttuhrinan hafi hafist á síðasta ári með aðgerðum framhaldsskólakennara og tilraunum sjómanna til að fá viðsemjendur sína að samningaborðinu. Allir vita að það kostaði tveggja mánaða verkfall að fá ríkið til að semja við kennara og að venju voru lög sett á sjómannaverkfallið vegna "hagsmuna í húfi". Nú hafa sjúkraliðar lagt tímabundið niður vinnu undanfarið og tónlistarkennarar hafa verið í verkfalli í a.m.k. þrjár vikur. Á sama tíma hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra atvinnurekenda, hótað flugumferðarstjórum afnámi verkfallsréttar þeirra með lögum og þannig brotið baráttu þeirra á bak aftur. Nú eru væntanlega flestir sammála um að kjör flugumferðarstjóra eru mjög góð miðað við margar aðrar stéttir þjóðfélagsins og tvímælalaust miklu betri en t.d. sjúkraliða og tónlistarkennara. Það skiptir reyndar engu máli í þessu sambandi. Málið er að flugumferðarstjórum var ekki hótað lögum á verkfallið. Þeim var hótað lögum á verkfallsréttinn vegna "hagsmuna í húfi". Þegar þessar fréttir dundu yfir þjóðina sagði samgönguráðherra í sjónvarpi að hér væri um þjóðarhagsmuni og almannaheill að ræða. Kannast menn við sönginn? Það sem skiptir máli er að nú er ekki lengur talað um að setja lög á verkföll, heldur á verkfallsréttinn sjálfan. Hafi einhver vinnandi maður hugsað sem svo að þetta væri gott á flugumferðarstjóra, þá ætti sá hinn sami að velta því fyrir sér hvað gerist ef ríkisstjórn hans hátignar ákveður að almannaheill og þjóðarhagsmunir leyfi ekki verkföll yfirleitt. Hver verður staða hinna vinnandi stétta í þessu landi ef verkföll verða bönnuð? Ætli atvinnurekendur rétti þeim þá kjarabæturnar á silfurfati? Ég held ekki.
Muna menn eftir litlum lögum sem sett voru á Alþingi fyrir nokkru samkvæmt pöntun bæjarstjórnar Árborgar og með dyggum stuðningi annarra atvinnurekenda? Þessi lög banna fjöldauppsagnir sem leið í kjarabaráttu en það virðist síðan túlkunaratriði hvenær um fjöldauppsögn vegna lélegra kjara er að ræða. Er það t.d. fjöldauppsögn ef 5 af 10 kennurum í litlum skóla úti á landi segja upp vegna óánægju með kjör sín? Hér er hreinlega verið að leggja drög að því að taka uppsagnarréttinn af vinnandi fólki.
Þær raddir gerast æ háværari í þjóðfélaginu að verkföll sem kjarabaráttutæki sé úrelt aðferð og um daginn sagði einn af þessum postulum í útvarpi að verkföll myndu hverfa fljótlaga á þessari öld vegna þess hvað þau eru óvinsæl. Okkur vinstrimönnum, sem höfum varað svo mjög við þeirri últra hægriþróun sem hér á sér stað, hefur verið borin íhaldssemi á brýn og verið sakaðir um að vera á móti öllum framförum.
Nú er það svo að sú þjóðfélagsgerð sem við búum við er ekki alveg ný af nálinni. Þegar kapítalisminn ruddi sér til rúms og festi sig í sessi á fyrri hluta 19. aldar voru verkföll bönnuð, verkafólk hafði engan uppsagnarrétt, engin félagsleg þjónusta var til staðar og þannig mætti lengi telja. Öll þau mannréttindi sem við búum við í dag hefur vinnandi alþýða náð fram með baráttu við auðvaldið og ríkisstjórnir þess á þeim tíma sem liðinn er frá því að kapítalisminn festi sig í sessi. Og í gegnum tíðina hafa atvinnurekendur og ríkisstjórnir þeirra reynt að skerða þessi áunnu réttindi eða taka þau af almenningi aftur. Svæsnustu dæmin eru frá tíma fasismans í Evrópu en þá voru verkföll bönnuð í viðkomandi löndum og verkafólk var hreinlega eign atvinnurekendanna. Þannig er nýfrjálshyggjan ekkert annað en afturhaldsstefna einkavæðingar í stað félagslegrar þjónustu, þar sem stefnt er að þeim heimi, sem íhaldsmenn horfa til með glýju í augum, heimi fortíðar án verkfalla, án samningsréttar, án uppsagnarréttar, án þeirra félagslegu réttinda sem alþýða manna hefur áunnið sér með linnulausri baráttu, þar með talið verkföllum.
Nú þegar ár er liðið af nýrri öld er ekki úr vegi að spyrja: Viljum við stefna fram á veg eða fara til baka? Viljum við halda í áunnin mannréttindi og berjast fyrir þeim ef því er að skipta eða ætlum við að láta afturhaldsöflin í þjóðfélaginu taka þau af okkur þegjandi og hljóðalaust? Viljum við varðveita náttúru landsins og heimsins til komandi kynslóða eða viljum við að afkomendur okkar um næstu aldamót horfi til baka með hryllingi og fordæmi okkur fyrir að hafa haldið áfram að stuðla að tegundaútrýmingu þrátt fyrir hin augljósu hættumerki? Viljum við standa utan hernaðarbandalaga sem friðelskandi þjóð eða ætlum við að halda áfram að taka þátt í drápum á saklausu fólki um víða veröld og m.a. halda áfram að bera ábyrgð á barnamorðum í Írak? Viljum við taka þátt í að uppræta hryðjuverk í heiminum m.a. með því að hætta stuðningi við síonasismann í Ísrael eða ætlum við að leysa hreyðjuverkavandamálið með því að styðja innrásir í framandi lönd að geðþótta Bandaríkjamanna og Breta (þeir hafa víst lýst því yfir að Írak sé næst)?
Ég óska öllum landsmönnum gleðilegs nýjárs.

Björgvin R. Leifsson
formaður Húsavíkurdeildar Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs
Þessi grein birtist í Norðurstjörnunni, málgagni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fyrir jólin 2001.


Efst á síðu

 

Síonasisminn

Eftir að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, fór inn í hverfi múslima í Jerúsalem sl. haust, beinlínis til að storka Palestínsku þjóðinni, hefur ríkt stríðsástand í landinu. Þarna fengu síonistar kærkomna tylliástæðu til að beita Palestínumenn þvílíku ofbeldi að annað eins hefur ekki sést frá því er friðarferlið fór í gang. Ísraelar eru á góðri leið með að gera palestínskt land að allsherjar gettói og svo virðist sem þeir ætli sér hreinlega að útrýma þjóðinni. sem þeir stálu landinu af með góðri aðstoð Breta og Bandaríkjamanna árið 1948.
Spyrja má hver er munurinn á aðferðum nasista gegn Gyðingum á síðustu öld og aðferðum síonískra Gyðinga gegn Palestínumönnum í dag. Ég fæ ekki betur séð en að munurinn sé eingöngu stigsmunur en ekki eðlismunur. Á ísraelska þinginu er til umfjöllunar tillaga um að setja lög sem leyfa pyntingar á Palestínumönnum. Ísraelar eru nýorðnir aðilar að alþjóða stríðsglæpadómstólnum, þó með því skilyrði að ekki sé hægt að sækja þá sjálfa til saka og fékkst þetta samþykkt vesturveldunum til háðungar. Leiðtogi Shas flokksins, rétttrúaðra Gyðinga, hefur lagt til allsherjar flugskeytaárás á borgir og bæi Palestínumanna. Og sjálfur forsætisráðherrann stóð fyrir fjöldamorðum á konum og börnum í palestínskum flóttamannabúðum þegar hann var einn yfirmanna herafla Ísraels.
Steingrímur J. Sigfússon skrifaði ágæta grein í Moggann fyrir nokkru, þar sem hann leggur út af því að þegar NATO stríðið gegn Serbum stóð sem hæst voru Kosovoalbanar "frelsisher" en nú eru þeir kallaðir "skæruliðar" af vestrænu pressunni. Búið er að handtaka Milosevich og krefjast Vesturveldin þess að fá hann framseldan sem stríðsglæpamann. Í mínum huga er Sharon síonasisti ekki minni stríðsglæpamaður en fyrrverandi forseti Serbíu. En ekki heyrist múkk frá NATO fasistunum Bush og Blair, sem halda sínu striki og alþjóðalögreglustefnu. Og íslenskir ráðamenn dansa með og gera mig og þig meðábyrg í þjóðarmorði á Palestínumönnum, Írökum og fleiri þjóðum og þjóðabrotum.

13.4.2001

Efst á síðu

 

Sveitarstjórnarmálin

Ýmsar vangaveltur eru nú í gangi um hvað Vinstrihreyfingin - grænt framboð ætlar að gera í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Við höfum lýst því yfir að við ætlum að gera okkur gildandi í þessum málaflokki og að það mun fara eftir aðstæðum á hverjum stað hvort við munum bjóða fram ein sér eða í samfloti með öðrum stjórnmálahreyfingum. Þetta hefur leitt til sögusagna á borð við að við ætlum að kljúfa Reykjavíkurlistann og fara fram ein og sér á Akureyri með Árna Steinar Jóhannsson í broddi fylkingar. Hysterían náði sérstakri vídd í dag, 24. febrúar, þegar Kolbrún Bergþórsdóttir spyr Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra Reykjavíkur, í helgarviðtali Dags hvort henni "finnst [ ] að það væri glapræði hjá vinstri grænum að fara í sér framboð" og á þá við Reykjavík.
VG hefur ekki gefið út neinar yfirlýsingar um framboðsmál í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári aðrar en þær er að ofan greinir og ættu því svona vangaveltur að vera bæði óþarfar og ótímabærar. E.t.v. tengist þetta annarri hysteríu um að við ætlum í ríkisstjórn með íhaldinu svo fáránlegt sem það nú er. Annars er ánægjulegt að sumar málpípur skuli vera hættar að tala um ríkisstjórn framsóknar, samfylkingar og VG með Halldór Ásgrímsson í fararbroddi. Þótti mér þá leggjast lítið fyrir kappana, sem einu sinni ætluðu að ná hreinum meirihluta. Miðað við undanfarnar skoðanakannanir ætti að vera hægt að mynda vinstri stjórn tveggja flokka eftir næstu alþingiskosningar en þá verður að halda vel á spöðunum svo að sameiginleg útkoma þessara flokka í skoðanakönnunum haldi sér og verði að veruleika. Því hlýtur það að vera umhugsunarefni beggja flokkanna að starfa saman að sveitarstjórnarmálum þar sem um það næst samstaða, sérstaklega þar sem slíkt samstarf er þegar í gangi.
Á Húsavík náði H-listinn meirihluta í síðustu sveitarstjórnarkosningum en hann var skipaður fólki frá Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og fólki utan flokka. Fyrir síðustu alþingiskosningar var gerð tilraun til að spyrða saman H-listann og Samfylkinguna en látum það liggja á milli hluta. Nú stendur til að kjósa um sameiningu sveitarfélaga í Þingeyjasýslum og mun sú niðurstaða sem þar fæst ugglaust hafa áhrif á hið pólitíska landslag í sveitastjórnarmálunum. Vonandi bera menn gæfu til að kjósa sameiningu frekar en sundrungu, því að stækkun og styrking sveitarstjórnareininga í hinum dreifðu byggðum er landsbyggðinni lífsnauðsyn. En hvort sem af sameiningu verður eður ei mun Húsavíkurdeild VG ekki skorast undan samstarfi vinstri afla í næstu sveitarstjórnarkosningum ef eftir því verður leitað og um það næst samstaða.

24.2.2001

Efst á síðu     Fara á brl.is