Svör mín við nokkrum spurningum.


Hér fyrir neðan eru svör mín við nokkrum spurningum, sem fólk hefur beint til frambjóðenda almennt eða til mín sérstaklega. Þó að sumt af neðangreindu sé ekki beinlínis á könnu stjórnlagaþingsins ákvað ég samt að birta allt, sem mér berst og svör mín.


Fara á brl.is



1. Ertu hlynnt(ur) því að auðlindir verði lýstar þjóðareign og strangar skorður settar við afnotum einkaaðila af þeim?

Svar: Já


2. Viltu aðskilnað ríkis og kirkju?

Svar: Já


3. Ertu hlynntu(ur) ákvæðum í stjórnarskrá sem tryggja aðgang almennings að upplýsingum í fórum hins opinbera, þar sem grundvallarreglan er að allar upplýsingar séu aðgengilegar almenningi?

Svar: Já


4. Á að kjósa forystumenn framkvæmdavaldsins, t.d. forsætisráðherra, beinni kosningu?

Svar: Ráðherrar eiga að víkja sem þingmenn og varamenn að koma inn.


5. Á lítill hluti þingmanna og/eða kjósenda að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðlu um tiltekin mál?

Mitt svar: Já, en hlutfallið má ekki vera of lágt þar sem þá er nokkur hætta á misnotkun.


6. Hvað með auðlindir og þá sérstaklega tryggja að vatns og orkuauðlindir séu í eigu og rekstri ríkis og/eða sveitafélaga?

Svar: Full yfirráð þjóðarinnar yfir eigin auðlindum verði tryggð. Þó að ég hafi ekki sett umhverfismál á oddinn varðandi stjórnarskrána er fullt af góðu fólki, sem það gerir, t.d. Kristín Vala Ragnarsdóttir. Ég styð að sjálfsögðu alla viðleitni til að tryggja íslensk yfirráð yfir íslenskum auðlindum. Þess vegna er ég líka með þetta hér: Stjórnvöldum verði bannað að framselja vald til annarra aðila, þ.m.t. erlendra ríkja og/eða alþjóðlegra samtaka hvers konar.


7. (Ábending) Í mannréttindakafla nýrrar stjórnarskrár ætti að koma grein:
Enginn íbúi á Íslandi á að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Öllum verði tryggð lágmarksframfærsla, hvort sem þeir vinna undir samningum við ríkið og verkalýðsfélög eða eru háðir bótagreiðslum ríkis eða sveitarfélaga.
Lágmarksframfærsla skal vera reiknuð út samkvæmt viðurkenndum stöðlum þar sem tekið er tillit til kostnaðar við fæði, klæði, húsnæði, lyfja, veikinda, afþreyingar, samgangna, og vaxta/verðbóta.

Svar: Ég er að mestu sammála ofangreindu. Enn betra væri að hafa ákvæði um að allir leggi af mörkum til þjóðfélagsins eftir getu hvers og eins og að öllum sé tryggð lágmarksframfærsla eftir þörfum hvers og eins - og á ég þá við raunverulegar grunnþarfir en ekki gerviþarfir.


8. Þyrfti að stjórnarskrárbinda hlutfallið hve margir landsmanna gætu krafist kosninga (þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu, innskot) eða hlutfall alþingismanna?
Ef það væri lágt væri hægt að taka svissnesku leiðina á þetta og kjósa 4 sinnum á ári.

Svar: Það er umhugsunarefni. Það má ekki vera svo lágt að það sé nánast alltaf hægt að gera Alþingi óstarfhæft með því að krefjast þjóðaratkvæðis né heldur svo hátt að erfitt væri að ná tilskildu hlutfalli. Ég held nú samt að það verði að setja eitthvert viðmið í stjórnarskránni sjálfri.
Svissneska leiðin er eitthvað, sem er vert að skoða í fullri alvöru.


9. Aðhyllist þú þá hugmynd að hver þingmaður geti setið á Alþingi hámark 8 ár samfellt?

Svar: Almennt er ég ekki hlynntur því að setja slík tímatakmörk vegna þess að ég vil síður sjá á eftir hæfu og góðu fólki bara vegna þess að lög og/eða reglugerðir heimila því ekki lengri setu í stjórnum, á Alþingi o.s.frv. Enn fremur finnst mér hæpið að taka þannig framboðsréttinn af fólki. Hins vegar þarf að stórauka vægi útstrikana í kosningum þannig að við, þjóðin, getum sett vanhæft fólk af.


10. Mun forsetinn fá staðfest neitunnarvald krefjist ákveðinn hluti þjóðarinnar þess og hvaða prósentu viltu miða við? Muntu vera hlynntur því að forsetinn geti leyst upp þing og boðað til kosninga óski t.d. 30-40% þjóðarinnar þess í undirskriftasöfnun?

Svar: Ég hef áhuga á því að skoða þessi mál, sem þú nefnir varðandi neitunarvaldið og að leysa upp þing. Athuga ber þó tvennt:
Í fyrsta lagi getur forsetinn nú þegar veitt ráðherrum lausn og rofið þing. Það hefur aldrei svo mér sé kunnugt reynt á þessi ákvæði nema á hefðbundinn hátt við stjórnar- eða ráðherraskipti og þingrof vegna kosninga. Spurning er hvort við viljum skerpa á þessum ákvæðum þannig að ekki fari á milli mála að forseti (og þar með þjóðin) hafi þennan rétt.
Hins vegar, ef við búum svo um hnútana að forsetinn, fyrir hönd þjóðarinnar, geti leyst upp þing utan hefðbundins þingrofs, erum við þá að búa Alþingi og ríkisstjórn óviðunandi starfsskilyrði? Ég er reyndar fylgjandi því að á þetta verði látið reyna.


11. Kosningar, sem fara eftir flokkakerfi eru ekki marktækar, vegna þess að atkvæðin eru ekki jöfn yfir landið og jöfnunarsæti eru eitthvað sem er löngu orðið úrelt. Svo væri nú gaman að sjá að landið yrði allt að einu kjördæmi.

Svar: Flokkakerfið og atkvæðajöfnun eru tveir ólíkir hlutir að mínu mati. Krafan um eitt kjördæmi verður sífellt háværari og gæti verið skref í rétta átt svo framarlega sem ekki verður gengið frekar á atkvæðavægi landsbyggðarinnar. Við megum hins vegar aldrei láta það henda okkur að setja ákvæði í stjórnarskrána um skerðingu á réttindum fólks til að stofna stjórnmálaflokk nema flokkurinn hafi beinlínis stjórnarskrárbrot á stefnuskránni.


12. Vil sjá kerfinu umbylt þannig að spilling, sætaverming í nafni flokka sem og einkavinavæðing heyri sögunni alveg til og alþingismenn verði aftur það sem þeir eiga að vera, þakklátir fyrir að fá traust til að þjóna almenningi, ekki hagsmunahópum, flokkum eða einkavinum.

Svar: Einmitt það sem ég vil en kannski erum við ekki sammála um leiðir. Ég vil að útstrikanaleiðin t.d. fái stóraukið vægi. Það held ég að geti haft töluverð áhrif. Um leið þarf að breyta kosningalögum þannig að við getum kosið einn lista en um leið strikað út af öðrum listum. Það verður hins vegar ekki gert á stjórnlagaþingi, held ég.


13. Hver er afstaða þín til persónukjörs og flokkakjörs?

Svar: Það er sjálfsagt að skoða hvernig hægt er að sætta bæði sjónarmiðin. Ég vil ekki taka réttinn til að stofna stjórnmálasamtök og bjóða fram lista í nafni stjórnmálasamtaka af fólki. Slíkt væri skerðing á félagafrelsi stjórnarskrárinnar. Á hinn bóginn sé ég ekkert athugavert við að leyfa einstaklingum að bjóða sig fram til Alþingis eða sveitarstjórna. Ég er hins vegar engan veginn viss um að persónukjör geti komið í stað listakosninga og sé ekki hvernig slíkt fyrirkomulag ætti sjálfkrafa að leiða til minni spillingar í íslenskum stjórnmálum.


14. Ég kýs BARA þann stjórnlagaþingmann sem er tilbúinn að lýsa því yfir opinberlega að hann sé á MÓTI nýju hjúskaparlögunum (kynvillugiftinunum). Vitið þið af einhverjum einum???

Svar: Vilji fólk gifta sig má það það fyrir mér, hvort sem það er gagnkynhneigt eða samkynhneigt. Ég get ómögulega séð að þetta sé eitthvað, sem stjórnlagaþing ætti að fjalla um. Auk þess má benda á að þessi lög eru í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í rauninni þyrfti að bæta við "kynhneigðar" í 65. greinina.


15. Viltu að vernd umhverfis og náttúru verði höfð að leiðarljósi við allar framkvæmdir?

Svar: Já.


16. Viltu að Ísland verði áfram aðili að Atlandshafsbandalaginu?

Svar: Nei


17. Viltu að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu náist hagstæðir samningar?

Svar: Nei


18. Ert þú hlynntur jafnri kennslu allra trúarbragða í grunnskólum ?

Svar: Já, sjá þó svar mitt við næstu spurningu.


19. Ert þú hlynntur kristnifræði kennslu í grunnskólum umfram önnur trúabrögð vegna menningararfs og þess að yfir 90 % þjóðarinnar teljast kristinnar trúar?

Svar: Hugsanlega ef ekki felst í því nein innræting af neinu tagi og þá eingöngu sem trúarbragðafræði og sem hluti af ökkar menningarsögu.


20. Ert þú tilbúinn til að vinna að þeirri breytingu að ríkisvaldið geti ekki lögbundið landsmenn til að greiða í lífeyrissjóði án þess ð? ábyrgjast innistæðuna og verðgildi hennar?

Svar: Hugsanlega.


21. Ertu hlynntur því að það verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn og að þar verði fullkomins jafnræðis gætt?

Svar: Nei. Ég vil ekki taka áunnin eða umsamin réttindi af neinum hóp launamanna eða starfsstéttum.


22. Ert þú tilbúinn til að vinna að því að verðtrygging húsnæðislána verði afnumin?

Svar: Já.


23. Viltu vinna að því að öll verðtrygging lána sé ólögmæt?

Svar: Já.


24. Ert þú hlynntur hvalveiðum Íslendinga?

Svar: Nei.


25. Telu þú að flugvöllurinn eigi að vera í Reykjavík til frambúðar?

Svar: Já.


26. Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings?

Svar: Já.


27. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?

Svar: Já


28. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

Svar: Já.


29. Vilt þú að verndun íslenskrar tungu sé tekin fram í stjórnarskrá?

Svar: Já.


30. Vilt þú efla vald forseta?

Svar: Já, lítillega, sjá svar við næstu spurningu og
afstöðu mína til þjóðaratkvæðagreiðslna.


31. Vilt þú styrkja málskotsrétt forsetans?

Svar: Já, a.m.k. taka af öll tvímæli um að öll lagafrumvörp, sem hann synjar eiga að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.


32. Vilt þú afnema fiski- og mjólkurkvóta?

Svar: Ég vil breyta báðum kerfum verulega (t.d. taka kvótann af útgerðarauðvaldinu) en ekki afnema þau því að við þurfum að hafa stýringu bæði á fiskveiðunum og landnýtingunni.


33. Vilt þú breyta trúarvenjum okkar?

Svar: Nei, ég vil hins vegar aðskilja ríki og kirkju.  Það er ekki það sama.


34. Vilt þú álver og líkar stórframkvæmdir?

Svar: Nei


35. Vilt þú taka upp annan gjaldmiðil?

Svar: Nei


36. Vilt þú fjölþjóðlegt samfélag?

Svar: Já.


37. Vilt þú vera í Schengen?

Svar: Nei.


38. Vilt þú viðskiptaleynd eða gegnsæi varðandi fjármál banka og stórfyrirtækja?

Svar: Gegnsæi.


Til baka   Efst á síðu